Þriðjudagur 10. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 192. tbl. 16. árg.

Skattadagurinn var í gær. Skattar eru langstærsti útgjaldaliður heimila.
Skattadagurinn var í gær. Skattar eru langstærsti útgjaldaliður heimila.

Samband ungra sjálfstæðismanna minnti á það í gær að þá var liðið það hlutfall ársins sem jafngildir sneiðinni af þjóðarkökunni sem hið opinbera skammtar sér eða 52%. Það má því segja að frá áramótum og þar til í gær hafi venjulegur Íslendingur verið að störfum fyrir ríki og sveitarfélög. Nú geti hann loks hafið vinnu fyrir sig og sína.

Sem fyrr benda menn á að skattarnir skili sér sem ýmis þjónusta sem ríki og sveitarfélög veita. En margt af þeirri „þjónustu“ er auðvitað eitthvað sem litlir en vel skipulagðir hópar hafa herjað út úr hinu opinbera. Útrásarharpan, íþróttamannvirki, jarðgöng, styrkir til bústarfa og það nýjasta, gleraugnastyrkur sem þingmenn ákváðu af skammsýni sinni að veita sjálfum sér, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Því má heldur ekki gleyma í þessu samhengi að hið opinbera ráðstafar ekki aðeins 52% af tekjum landsmanna. Á þá eru lögð ýmis höft sem eru þeim til skapraunar. Um þessar mundir er þar helst að nefna að þau 48% sem hið opinbera hirðir ekki beint af mönnum eru greidd út í einhvers konar skömmtunarseðlum sem ekki má skipta í erlenda gjaldmiðla.