Helgarsprokið 1. júlí 2012

Vefþjóðviljinn 183. tbl. 16. árg.

Davíð Þór Jónsson hefur tvívegis ritað greinar um Ólaf Ragnar Grímsson forsetaframbjóðanda. Annars vegar greinina „Þegar örvæntingin ein er eftir“ í Alþýðublaðið 13. júní 1996 og hins vegar greinina „Að kjósa lygara og rógtungu“ á bloggsíðu sína í síðustu viku

Í millitíðinni lauk Davíð Þór námi í guðfræði frá Háskóla Íslands.

Davíð Þór Jónsson um Ólaf Ragnar fyrir útskrift úr guðfræðinni:

En viti menn, nú þegar skoðanakannanir benda til þess að þjóðin ætli rétt einu sinni að velja frjálslyndan og alþýðlegan frambjóðanda fara öflin sem ekki mega hugsa til þess að slíkur maður búi á Bessastöðum að afhjúpa örvæntingu sína þannig að unun er að fylgjast með. Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar stórskemmtilega grein í þetta blað þriðjudaginn 11. 6. þar sem hann fer á kostum og finnur einum frambjóðandanum flest til foráttu þannig að ekki er hægt að verjast brosi yfir bitleysi vopna hans.

Davíð Þór Jónsson eftir útskrift:

Af því tilefni við ég taka fram að ég tel kjósendur Ólafs Ragnars Grímssonar ekki heimskari eða verri manneskjur en þá sem hafa meiri mætur á öðrum frambjóðendum. Ég held aftur á móti að þeir séu haldnir sterkara foringjablæti en lýðræðinu er hollt. Helsta röksemd þeirra virðist vera að þjóðin þurfi „sterkan leiðtoga“. Því finnst eitthvað töff við hann. 

Davíð Þór Jónsson guðfræðistúdent:

Hannes segir það staðreynd, en ekki róg, að frambjóðandinn hafi margoft gerst sekur um ósæmilegt orðbragð á opinberum vettvangi, skýrasta dæmið sé ummæli hans um „skítlegt eðli“ forsætisráðherra. Auðvitað hvarflar að manni að Hannes sé að súpa hveljur þessa dagana vegna þess að samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana virðist helmingur þjóðarinnar telja þessi ummæli um átrúnaðargoð hans staðreynd en ekki róg.

Hannes leggst ennfremur svo lágt að saka frambjóðandann um svívirðilegar lygar vegna þess að í fréttabréfi alþjóðlegra þingmanna- og varaþingmannasamtaka er sagt að hann hafi verið þingmaður síðan 1974 en ekki 1978. Big deal.

Davíð Þór Jónsson Cand. Theol.:

 Að mínu mati er það þó ekki það sem við þurfum á að halda núna. Lygar og rógur eru ekki styrkleikamerki, heldur þvert á móti veikleikamerki. Lygarinn og rógtungan stendur alltaf uppi á endanum afhjúpaður, berrassaður, hlandbrunninn og flengdur af sinni eigin framgöngu.

Maður, sem sjálfur veigraði sér ekki við því að saka gagnrýnendur sína um „skítlegt eðli“, verður öðrum fremur að sætta sig við að gagnrýni á hann sjálfan sé sett fram án tæpitungu.

Davíð Þór lauk grein sinni árið 1996 á orðum sem eru ekki vitlausari en hver önnur sem niðurlag á sproki dagsins.

Já, forsetakosningar eru skemmtilegar. Þær virðast einatt gefa þorra þjóðarinnar kærkomið tækifæri til að fylgjast opinberlega með örvæntingu þeirra afla sem einmitt er svo ánægjulegt að sjá örvænta… og tapa.