Helgarsprokið 24. júní 2012

Vefþjóðviljinn 176. árg. 16. árg.

Um helgina lýsti fjármálaráðherra Þýskalands því yfir opinberlega að Evrópusambandið yrði að fá meiri völd yfir aðildarríkjum sínum. Ekki mætti gerast að einstök aðildarríki gætu hindrað „mikilvægar ákvörðunartökur“. Þýski ráðherrann sagði einnig að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þyrfti að verða að ríkisstjórn.

Evrópusambandið myndi hins vegar ekki verða að sérstöku sambandsríki eins og Bandaríkin, því hvert land fengi að halda sínum „menningarlegu sérkennum“.

Þjóðverjar draga hér enga dul á hvert þeir stefna með Evrópusambandið. Undir venjulegum kringumstæðum ráða Þjóðverjar auðvitað miklu, en við núverandi aðstæður, þegar öll hin aðildarríkin horfa bænaraugum til Berlínar, meira og minna komin á hnén sjálf, þá hlustar öll Evrópa þegar menn tala í Berlín.

Evrópusambandið heldur stöðugt áfram samrunanum. Áhrif einstakra aðildarríkja minnka jafnt og þétt. Sú þróun mun halda áfram. 

Þetta mega allir sjá sem hafa augun opin. Jafnvel íslenskir Samfylkingarmenn sjá þetta, en þeir sjá ekkert athugavert við að Ísland gangi í erlent ríkjasamband. 

Og undir forystu Steingríms J. Sigfússonar hlýða vinstrigrænir Samfylkingunni. Steingrímur, sem segir flokksmönnum sínum að hann hafi aldrei verið harðari andstæðingur ESB-aðildar en núna, er ófáanlegur til að afturkalla umsókn í félagið sem hann segist ekki vilja vera í.

Sumir halda að Ísland myndi hafa einhver „áhrif“ á mál Evrópusambandsins ef það gengi þangað inn. Þeir sömu sumir vilja „ljúka viðræðunum“ til að „sjá niðurstöðuna“. Þó er það svo, að Evrópusambandinu dettur ekki í hug að láta eins og verið sé að „semja“ um einhverjar varanlegar undanþágur Íslands frá Evrópusambandsreglum. „Samningaviðræðurnar“, sem einhverjir hér heima halda að eigi sér stað, snúast um það hvernig Ísland lagi sig að Evrópusambandinu. Ekki á hinn veginn.

Samkvæmt könnunum er yfirgnæfandi meirihluti landsmanna andvígur því að ganga í Evrópusambandið. Hverjum dettur í hug að stuðningsmönnunum fjölgi við aukinn samruna Evrópusambandsins? 

Fyrir tæpum fjórum árum reið efnahagsáfall yfir Vesturlönd og þá ekki síst á Íslandi. Við slíkar aðstæður reyna flestir sæmilegir stjórnmálamenn að fylkja landsmönnum saman, ýta ágreiningi til hliðar og vinna af sem mestum einhug út úr vandanum. Á Íslandi náði hins vegar Samfylkingin völdum.

Sá flokkur er þannig gerður að hann sér eingöngu eigin málefni. Þess vegna sér flokkurinn fyrst og fremst „sögulegt tækifæri“ fyrir sjálfan sig, þegar hann kemst óvænt í lykilstöðu við skyndikosningar þegar fólk er enn ekki búið að ná áttum. Undir forystu Samfylkingarinnar er byrjað á því að kljúfa þjóðina með því að reyna að þrýsta henni inn í Evrópusambandið, sem enginn flokkur annar en Samfylkingin vill þó gera. Þess vegna er líka lagt til atlögu við sjávarútveginn, þótt öll skynsemi segi að menn eigi að láta undirstöðuatvinnuveg landsins í friði, sérstaklega í efnahagsáfalli þegar landið þarf mest á honum að halda.

En Samfylkingin sér ekkert slíkt. Hún má ekki til þess hugsa að bíða með árásirnar á sjávarútveginn þar til landið hefur náð sér úr efnahagserfiðleikum. Hún má ekki til þess hugsa að bíða með að kljúfa þjóðina með Evrópusambandsumsókn þar til betur árar. Hún telur nefnilega að nú sé „sögulegt tækifæri“ hennar sjálfrar.

Og hvers vegna telur Samfylkingin að einmitt nú sé tækifæri sem ekki megi láta ónotað? Það er vegna þess að jafnvel Samfylkingin sér að engar líkur eru á því að kjósendur í þokkalegu jafnvægi veiti Samfylkingunni og Vinstrigrænum meirihlutafylgi. Þess vegna verður að grípa tækifærið núna.