Laugardagur 23. júní 2012

Vefþjóðviljinn 175. árg. 16. árg.

Beint lýðræði og fagleg vinnubrögð voru kjörorð vinstri flokkanna áður en þeir komust til valda. 

Allir þekkja hvað hug þeir hafa sýnt í verki til hins beina lýðræðis. Þeir hafa greitt atkvæði gegn hverri slíkri tillögu eftir að þeir komust í ráðherrastólana.

Nýlega skilaði svonefnd auðlindastefnunefnd ríkisstjórnarinnar af sér skýrslu. Í fréttum er víða talað um nefndina eins og hún sé einhver fagnefnd sérfræðinga eða eitthvað svoleiðis. Um nefndarmenn segir svo í inngangi skýrslunnar:

Nefnd um stefnumörkun í auðlindamálum ríkisins (Auðlindastefnunefnd) var sett á fót með erindisbréfi forsætisráðherra, samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar 31. maí 2011. Í upphafi var nefndin skipuð þannig: Arnar Guðmundsson formaður, fulltrúi forsætisráðherra; Álfheiður Ingadóttir, fulltrúi umhverfisráðherra; Bjarni Harðarson, fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra; Gunnar Tryggvason, fulltrúi iðnaðarráðherra; Indriði H. Þorláksson, fulltrúi fjármálaráðherra; Ragnar Arnalds, fulltrúi innanríkisráðherra og Svanfríður Inga Jónasdóttir, fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðherra.

Um áramótin 2011-2012 urðu þær breytingar að Indriði H. Þorláksson varð fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, Svanfríður Jónasdóttir varð fulltrúi fjármálaráðherra og Bjarni Harðarson hvarf úr nefndinni. Þannig skipuð lauk nefndin störfum sínum.

Ekkert nema gamlir flokksjálkar.