Þriðjudagur 5. júní 2012

Vefþjóðviljinn 157. tbl. 16. árg.

Tryggingastofnun ríkisins birti í gær þrjú dæmi um það hvort ellilífeyrisþegar hafi meira upp úr því að hafa fé sitt sýnilegt og í ávöxtun á bankareikningum eða skuldabréfum eða hvort best sé að stinga lausu fé undir koddann því vextir af því skerði bætur.

Að stofnunin skuli reikna slík dæmi segir sína sögu. Annars vegar er það ekki á færi allra að reikna dæmi af þessu tagi því bótakerfið og skerðingarnar eru flókin. Hins vegar liggur niðurstaðan vart í augum uppi ef þörf er á dæmunum.

Eitt dæmanna er af þessum hjónum:

Hjónin Birgir og Ásta eru bæði ellilífeyrisþegar. Ásta er einungis með tekjur frá Tryggingastofnun en Birgir er með 1.200.000 frá lífeyrissjóði á ári. Þau fá arf sem er tólf milljónir kr. eftir að erfðaskattur hefur verið greiddur. Hvernig eiga þau að geyma féð?

Tryggingastofnun ber saman tvo kosti. Annars vegar að kaupa ríkistryggð skuldabréf þar sem áætluð ávöxtun er 7,3% og hins vegar að setja milljónirnar 12 í bankahólf.

Niðurstaðan er sú að ráðstöfunartekjur hjónanna aukast um 21.317 krónur á ári ef peningarnir eru settir í ávöxtun. Það er 0,18% ávöxtun á ári.

Ætli mörgum þyki freistandi að standa í verðbréfaviðskiptum fyrir slík býti?