Fimmtudagur 31. maí 2012

Vefþjóðviljinn 152. tbl. 16. árg.

Kommi og kommisar. Stefán Füle heilsar upp á smækkunarstjóra Íslendinga.
Kommi og kommisar. Stefán Füle heilsar upp á smækkunarstjóra Íslendinga.

Bogi Ágústsson fréttamaður ræddi við Stefán Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi. Stefán þessi var liðsmaður kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu til 27 ára aldurs eða til ársins 1989 þegar ekki var meira upp úr því að hafa.

Það var tvennt áhugavert í máli Stefáns ferska.

Hann sagði þátttöku Evrópusambandsins í málarekstri ESA gegn Íslandi vegna innstæðutrygginga vera sjálfsagða og eðlilega því framkvæmdastjórn bandalagsins leitaðist ætíð við að verja og viðhalda reglum þess. Hann telur með öðrum orðum að að Íslendingar hafi brotið gegn þessum reglum. 

Stefán var einnig spurður hvort það væri ekki staðreynd að stjórn fiskveiða við Ísland myndi flytjast til Brussel við aðild Íslands að bandalaginu. Hann kvað svo ekki vera því Íslendingar myndu eiga sæti í salnum í Brussel þegar ákvarðanir yrðu teknar. Það væri því alls ekki verið að flytja vald frá Reykjavík til Brussel.