Vefþjóðviljinn 139. tbl. 16. árg.
Útvarpsstjóri og fréttastjóri Ríkisútvarpsins, Páll Magnússon og Óðinn Jónsson, – sem munu vera tveir menn þótt sumir hafi lengi haldið hið gagnstæða – munu nýlega hafa skrifað starfsmönnum sínum bréf vegna umfjöllunar um komandi forsetakosningar, og brýnt fyrir þeim að gæta hlutlægni þrátt fyrir að „einn af okkur“ sé í framboði, eins og Páll Magnússon mun hafa orðað það.
Útvarpsstjóri og fréttastjóri þekkja líklega starfsmenn sína nokkuð vel, og einnig hugsunarháttinn í Efstaleiti. Það segir talsverða sögu að þeir hafi báðir séð ástæðu til að skrifa starfsmönnunum slík bréf.
Ætli þeir hafi áður talið þörf á að skrifa slík bréf? Til dæmis fyrir aðrar kosningar eða þegar ólga hefur verið í þjóðfélaginu og fréttamenn og dagskrárgerðarmenn hafa farið mikinn?
En hver sem ástæða þeirra félaga hefur verið, þá blasir við að fullt tilefni er til að brýna fyrir starfsmönnum Rúv. að reyna að gæta hlutleysis fyrir komandi kosningar. Bæði er starfsmönnunum það skylt samkvæmt lögum, og auk þess er hverjum ljósvakamiðli mikilvægt að bjóða reglulega upp á nýjungar.
Einnig er fullt tilefni til að taka undir þá kröfu Herdísar Þorgeirsdóttur forsetaframbjóðanda að utanaðkomandi fólk verði fengið til að sjá um kosningaumfjöllun Rúv. að þessu sinni. Mætti til dæmis velja það fólk af handahófi úr símaskránni og fréttaflutningurinn yrði án nokkurs vafa hlutlægari en hann er nú.