Vefþjóðviljinn 138. tbl. 16. árg.
Bandaríski hagfræðiprófessorinn Paul Krugman hefur undanfarin misseri lýst yfir áhyggjum af því að sparnaður í opinberum rekstri auki á samdráttinn í efnahag Evrópu.
Pierre Moscovici, nýr fjármálaráðherra Frakka, hefur efasemdir um að reka eigi ríkissjóði Evrópulanda án halla. Hann telur jafnframt nóg komið af niðurskurði ríkisútgjalda í álfunni.
En á það við rök að styðjast að Evrópuríki hafi skorið niður opinber útgjöld að undanförnu? Eru áhyggjur Krugmans og Moscovici réttmætar?
Ef marka má þetta viðtal ReasonTV við hagfræðinginn Veronique de Rugy þá hefur lítill sem enginn niðurskurður átt sér stað. Ríkisstjórnir hafa ef til vill sett sér markmið um flatan niðurskurð um einhver x% sem hefur svo ekki gengið eftir, því eina raunverulega leiðin til að spara er að slá af opinberar stofnanir og útgjöld til ákveðinna mála.
Því til viðbótar hafa menn snarhækkað skatta vítt og breitt um Evrópu með þeim rökum að annars þurfi að spara.