Vefþjóðviljinn 130. tbl. 16. árg.
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra hefur lagt fram lagafrumvarp sem meðal annars bannar fjölmiðlum að birta eða segja frá niðurstöðum skoðanakannana á kjördag og daginn fyrir kosningar. Þá verður þeim jafnframt óheimilt að vísa til annarra heimilda um skoðanakannanir sem gerðar eru þessa daga.
Það verður hlálegt ef vinstriflokkarnar fá samþykkt bann við birtingu skoðanakannana. Engir hafa nefnilega eins og þeir byggt á skoðanakönnunum þegar teknar eru grundvallarákvarðanir.
Hvernig var á sínum tíma með R-listann? Þar dugði skoðanakönnun til að flokkarnir legðu sjálfa sig niður í borgarstjórn, enda gaf könnunin til kynna að þannig mætti koma höggi á Sjálfstæðsisflokkinn. Stundum þarf reyndar ekki skoðanakönnun til. Stefnu Samfylkingarinnar í virkjanamálum var breytt með einum tónleikum í Laugardalshöllinni. En oftast er fyrst gerð skoðanakönnun og svo ákveðið hvernig skuli bera sig að.
Og þannig eru framboðsmálin ennþá ákveðin í vinstrikreðsunum. Forsetakosningarnar í sumar eru skýrt dæmi. Forkólfar vinstrimanna vilja refsa Ólafi Ragnari fyrir að hafa í tvígang synjað Icesave-lögunum þeirra staðfestingar. Hvað gera þeir þá? Það er gerð skoðanakönnun. Hvaða krati er líklegastur til að geta fellt Ólaf Ragnar? Hann er svo studdur í framboð, en lagst á aðra hugsanlega frambjóðendur að fara nú ekki fram, því ekki megi „dreifa atkvæðunum“.
Og þessir flokkar ætla svo að banna birtingu skoðanakannana.