Vefþjóðviljinn 111. tbl. 16. árg.
Ekki fer fram hjá neinum sem fylgist með netmiðlum að nú stendur mikið til. Forsetakosningar nálgast og „fréttirnar“ af frambjóðendum byrjaðar að streyma inn. Við því er ekkert að segja, því auðvitað nýta framagjarnir frambjóðendur sér það ef þeir finna að á einhverjum fjölmiðli er lítil fyrirstaða eða jafnvel vilji til að spila með.
Þess vegna vill Vefþjóðviljinn leggja til, að miðlarnir setji kvóta á spunafréttir af frambjóðendum. Hver þeirra megi koma inn einni „frétt“ vikulega, um að þeir hafi haldið ofboðslega vel heppnaðan fund í Vík í Mýrdal eða fengið gefins peysu á heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi, eða hvað þeir vilja spinna. En umfram þetta, verði ekki hrúgað á fólk spunafréttum.
Allt öðru máli gegnir um raunverulegar fréttir af kosningabaráttunni, fréttir sem fréttamenn vinna og eru af einhverju sem raunverulega skiptir máli þegar kjósendur fara að velta fyrir sér raunverulegum kostum og göllum hvers frambjóðenda. Mættu fjölmiðlar þar margt læra af einstaklegra daufri frammistöðu sinni árið 1996, þar sem þeir tóku athugasemdalaust við tilbúinni glansmynd sem búin var til um einn frambjóðandann og dönsuðu kringum hann. Slíkt má ekki endurtaka sig nú, um nokkurn frambjóðanda.
En hlífiði fólki við spunanum.