Fimmtudagur 12. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 103. tbl. 16. árg.

Stofnun Íbúðalánasjóðs 1998 og SpKef 2010 voru pólitískar ákvarðanir en ekki afleiðingar hrunsins eins og Sigríður I. Ingadóttir heldur fram.
Stofnun Íbúðalánasjóðs 1998 og SpKef 2010 voru pólitískar ákvarðanir en ekki afleiðingar hrunsins eins og Sigríður I. Ingadóttir heldur fram.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að halli á fjárlögum ársins 2012 gæti þrefaldast vegna útgjalda sem falla á ríkissjóðs vegna Íbúðalánasjóðs og SpKef.

Rætt var við Sigríði I. Ingadóttur formann fjárlaganefndar Alþingis vegna málsins.

Þetta eru ekki óvænt tíðindi, þetta er eitthvað sem hefur legið fyrir að kynni að verða. Ef áætluð sala eigna misferst í ár koma tekjurnar sem reiknað var með á þessu ári síðar til góða inn í ríkissjóð. En útgjöldin vegna SpKef og Íbúðalánasjóðs eru náttúrulega hluti af afleiðingum hrunsins.

Er sanngjarnt að segja það „afleiðingar hrunsins“ að ríkið hefur frá 1998 rekið Íbúðalánasjóð (áður Húsnæðisstofnun ríkisins og gjaldþrota félagslega húsnæðiskerfið) og lánað almenningi og verktökum fé til að kaupa lóðir og reisa hús? Er það hruninu 2008 að kenna að fyrir mörgum áratugum tóku íslenskir stjórnmálamenn þá ákvörðun að hefja lánastarfsemi með ríkisábyrgð og gera skattgreiðendur þar með að ábyrgðarmönnum fyrir því ævintýri?

Væri ekki nær að líta til þeirra stjórnmálamanna, eins og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem á árunum fyrir hrun vildu „standa vörð um Íbúðalánasjóð“ og auka lánveitingar hans og slaka á kröfum um veð?  Jóhanna vildi halda skattgreiðendum ábyrgum fyrir íbúðalánum. 

Útgjöldin vegna SpKef voru heldur ekki bein „afleiðing hrunsins“ heldur var það sérstök pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur löngu eftir hrun að ríkið tæki að einhverju leyti ábyrgð á því að sjóðurinn var búinn að tapa peningunum sem lánveitendur hans höfðu treyst honum fyrir. SpKef var stofnað af fjármálaráðuneyti Steingríms J. Sigfússonar árið 2010 og hefur jafnvel verið deilt um hvort sú leið sem Steingrímur við stofnunina hafi verið lögum samkvæmt.