Vefþjóðviljinn 102. tbl. 16. árg.
Frá Kópavogi berast nú tíðar fréttir af því að nýr minnihluti í bæjarstjórn vilji fá að vita hvers vegna bærinn hafi ekki, sumarið og haustið 2010, blandað sér í umsókn skemmtistaðarins Goldfinger um endurnýjun rekstrarleyfis. Svo skemmtilega vill til, að á þeim tíma voru núverandi minnihlutaflokkar allir í meirihluta og bæjarstjórann Guðrúnu Pálsdóttur höfðu þeir sjálfir ráðið. Þeir vilja því fá að vita hvers vegna bærinn hafi á þeirra eigin valdatíma ekki skilað inn umsögn um málið, áður en leyfið var framlengt.
Auðvitað má brosa að minnihlutaflokkunum fyrir þetta. En það sem er ekki broslegt er hin sívaxandi árátta manna til að beita hinu opinbera til að skipta sér af saklausri hegðun fullorðins fólks. Á veitingastaðnum Goldfinger munu léttklæddar konur skemmta gestum með dansi sínum. Það vilja forræðishyggjumenn ekki, og reyna því að fá staðnum lokað með valdi. Rétt eins og þeir hafa misnotað lögreglusamþykktir til að knýja fram þann vilja sinn að banna fólki að dansa einkadans gegn greiðslu. Rétt eins og þeir hafa með lagasetningu bannað eigendum veitingahúsa að leyfa gestum sínum að njóta tóbaks á staðnum. Og þannig mætti lengi telja.
Sumir segja að algengt sé að fólk sé neytt til að dansa nakið. Dansararnir hljóti allir að vera bláfátækir Úkraínumenn sem seldir hafi verið mansali, haldið nauðugum á staðnum og neyddir í dansinn. Sé svo, þá væri slíkt auðvitað alvarlegur glæpur. Fyrir slíkan glæp ætti vitaskuld að refsa. En það er bara allt annað mál og kemur almennum rekstrarleyfum ekkert við. Þau byggjast ekki á sögusögnum baráttumanna.
Það er almennt álitið að í mörgum löndum tíðkist að börn og aðrir sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér þræli í verksmiðjum frá morgni til kvölds, fyrir sultarlaun, til að framleiða varning sem seldur er á Vesturlöndum. Hvernig bregðast Vesturlandabúar við því? Eru viðskipti við þau lönd bönnuð? Nei, það er víst ekki gert og raunar munu Vesturlandabúar margir hverjir vera mjög áfjáðir í kaupa sér ódýran varning, framleiddan í slíkum löndum. Jafnvel margar helstu tískuhátæknivörurnar munu fullar af búnaði sem framleiddur er í löndum þar sem vinnuafl er mun ódýrara en á Vesturlöndum. Og hvers vegna eru viðskipti ekki bara bönnuð við slík lönd? Það er vegna þess að í slíkum málum byggja menn hvorki á sögusögnum né hópsekt.
Það er ekki glæpur að einn dansi nakinn fyrir annan og fái greitt fyrir. Í huga sumra kann slíkt að vera löstur, en það er bara annað mál og kemur ríkinu ekkert við. Löstur er ekki glæpur, eins og Lysander Spooner rekur svo eftirminnilega í litla kverinu sem fæst í Bóksölu Andríkis.