Vefþjóðviljinn 101. tbl. 16. árg.
Viðskiptablaðið ræddi við Jón Gerald Sullenberger kaupmann í Kosti í síðustu viku. Þar var að sjálfsögðu drepið á matvöruverð á Íslandi og erlendis. Um það sagði Jón:
Matvörur eru ekki dýrar í Bandaríkjunum og í því samhengi er mjög athyglisvert að fylgjast með um ræðunni um mögulega inngöngu í Evrópusambandið (ESB). Stjórnvöld eru mjög upptekin af því að koma okkur inn í ESB og margir tala um að með inngöngu muni matvöruverð lækka. Staðreyndin er nú samt sú að matvöruverð innan ESB er um 20-40% dýrara en í Bandaríkjunum. Það er alltaf verið að tala um hvað matvöruverð sé hátt á Íslandi en ég get ekki séð að það muni lækka með inngöngu í ESB.
Jón Gerald segir þetta eiga við um vöruverð almennt, ekki bara verð á matvörum.
Maður gat hvergi lesið um það fyrir síðustu jól að það væri uppselt í verslunarferðir til London eða Kaupmannahafnar, en þess í stað var uppselt í allar ferðir til Boston. Þrýstingur á verð í Bandaríkjunum er mjög mikill og það framkallar þetta lága vöruverð.
Vegna aðildar Íslands að EES samningnum þurfa merkingar á vörum að vera samkvæmt tilskipunum sambandsins.
Þú getur rétt ímyndað þér hvað þetta kostar neytendur. Ég er með menn í vinnu hérna sem gera ekkert annað á daginn en að líma miða á vörurnar. Það stoppar ekki prentarinn og þessu fylgir gífurlegur kostnaður því það þarf að merkja vörurnar á ákveðinn hátt. Þetta þýðir alltaf meiri kostnað fyrir neytandann. Það eru mjög flóknar reglur og reglugerðir sem koma frá Evrópusambandinu og eru innleiddar hér á landi og á hverju ári koma nýjar. Þetta er algjör endaleysa. Þessar reglur eru hugsaðar fyrir samfélög sem telja milljónir manna. Það er samt enginn sem spáir í það af hverju við erum að innleiða þetta allt saman. Við höfum í raun ekkert efni á því að standa undir þessari skriffinnsku og ég ítreka að þetta mun alltaf þýða meiri kostnað fyrir neytandann. Svo kvörtum við undan því hvað matarverð sé hátt á Íslandi.
Já hvað ætli matvælaverð á Íslandi sé mikið hærra en það ella væri vegna tilskipana ESB um merkingar? Það er ekki aðeins kostnaður við merkingarnar sjálfar heldur virka þær sem tæknilegar viðskiptahindranir á vörur frá löndum utan ESB.
Jón Gerald segir að fleiri reglugerðir séu ávallt afsakaðar með því að verið sé að auka öryggi neytenda.
Samt er að koma á daginn að þrátt fyrir allt þetta eftirlit og allar þessar reglugerðir hafa menn verið að selja iðnaðarsalt í matvörur í rúman áratug. Þetta er að mörgu leyti falskt öryggi en kostnaðurinn og vinnan við að framfylgja því er til staðar.