Vefþjóðviljinn 81. tbl. 16. árg.
Það er víst alveg blóðugur niðurskurður hjá ríkinu. Allt komið inn að beini. Raunar mesta furða að nokkuð hafi samt verið til að skera, eftir öll frjálshyggjuárin.
Nú voru fjölmargir opinberir starfsmenn að fá heimsenda spurningalista vegna vals á stofnun ársins, sérprentaða á fínan pappír. Þar eru þeir spurðir um ýmis gríðarlega mikilvæg atriði sem ekki þolir nokkra bið að fá svör við.
Þeir eiga til dæmis að svara því hvort þeir séu „sammála eða ósammála“ fullyrðingum eins og:
„Ég veit hvert ég á að leita innan stofnunarinnar ef mig vantar upplýsingar sem snúa að starfi mínu“
„Starf mitt er metið að verðleikum innan stofnunarinnar“
„Markmiðin með starfi mínu eru skýr“
„Ég fæ nægar upplýsingar um það sem gerist hjá stofnuninni“
Einnig er spurt um ýmis afar mikilvæg atriði eins og:
„Fórst þú í starfsmannasamtal á síðustu 12 mánuðum?“
„Varstu ánægður með eftirfylgni starfsmannasamtalsins?“
„Var unnin starfsþróunaráætlun fyrir þig hjá stofnuninni?“
Og þannig má lengi telja.
Þeir ríkisstarfsmenn sem svara þessum mikilvægu spurningum lenda sjálfkrafa í happdrætti. Fimmtán vinningar, allir utanlandsferðir, verða veittir fyrir þátttökuna.
Hvað ætli þetta sprell kosti nú? Og ekki síður, hvað ætli fyrirtækið sem sér um spruningaleikinn fái greitt fyrir þetta mikilvæga rannsóknarstarf?
Var ekki hægt að sleppa þessu á „niðurskurðartímunum“? Eða var „niðurskurðurinn“ þegar orðinn of blóðugur?