Þriðjudagur 20. mars 2012

Vefþjóðviljinn 80. tbl. 16. árg.

Líkur sækir líkan heim. Umsjónarmenn Spegilsins bjóða nær eingöngu vinstriseggjum í viðtal.
Líkur sækir líkan heim. Umsjónarmenn Spegilsins bjóða nær eingöngu vinstriseggjum í viðtal.

Fjölmiðlamenn hafa mikinn áhuga á því að „einhver axli ábyrgð“. Hvenær sem eitthvað fer úrskeiðis, eða grunur vaknar um að einhvers staðar hafi einhverjum skráðum eða óskráðum reglum ekki verið fylgt út í hörgul, þá mæta þeir og spyrja hver beri ábyrgðina og hvernig menn ætli að „axla“ hana.

En hvernig er með þá sjálfa? Fréttamenn og dagskrárgerðarmenn Ríkisútvarpsins, vandlega bundnir af hlutleysisreglum, hvaða ábyrgð bera þeir í störfum sínum? Gerist það oft að starfsmaður Ríkisútvarpsins „axlar ábyrgð“ á villandi frétt, ósanngjarnri uppstillingu, hlutdrægu vali viðmælenda í þætti eða ójöfnum spurningum eftir því hvort stjórnandinn er sammála viðmælanda sínum eða ekki?

Hversu oft hefur starfsmanni Ríkisútvarpsins verið gert að biðjast afsökunar, að ekki sé beðið um alvarlegri „öxlun“ ábyrgðar en það, á því að hafa ekki fylgt hlutleysisreglum stofnunarinnar?

Fyrrverandi útvarpsstjóri talaði um „fréttaþáttinn“ Spegilinn sem „Hljóðviljann“, slík væri vinstrislagsíðan á þættinum. Meira gerði hann víst ekki til að lagfæra þá slagsíðu sem hann bar ábyrgð á. Ekkert gerir núverandi útvarpsstjóri til slíks og heldur líklega að hann muni aldrei þurfa að bera ábyrgð á því hvernig starfsmenn Ríkisútvarpsins ganga fram.

Í síðustu viku birti Viðskiptablaðið lista yfir algengustu viðmælendur í „fréttaþættinum“ Speglinum, sem Ríkisútvarpið sendir út fimm daga vikunnar. Listinn  segir sína sögu:

Langoftast var fenginn í þáttinn hinn kunni vinstriprófessor Þórólfur Matthíasson, þrjátíu og tvisvar sinnum takk kærlega fyrir. Það er auðvitað með algerum ólíkindum. Hvernig halda menn að vinstrimenn létu yfir fréttaskýringaþætti sem leitaði þrjátíu og tvisvar sinnum til Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og létu gagnrýnislaust hann tala yfir hlustendum sem prófessor við Háskóla Íslands?

Annars var listi Viðskiptablaðsins eins og hér má sjá hér að ofan, og sýnir hvern vinstrisegginn á fætur öðrum. Í fjórtánda sæti kemur loks Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann hefur auðvitað það sér til ágætis að mati Spegils-manna að vera í þeim fámenna hópi sjálfstæðismanna sem vill ganga í Evrópusambandið. Menn geta líka skemmt sér við að raða þessum merku viðmælendum eftir því hvort þeir tóku opinbera afstöðu með eða móti Icesave-frumvörpum ríkisstjórnarinnar.