Vefþjóðviljinn 51. tbl. 16. árg.
Robert Wade hagfræðingur var gestur í Silfri Egils í gær. Að sögn umsjónarmanns þáttarins spáði Wade vorið 2008 „fyrir“ um fjármálahrunið á Íslandi. Í gær sló Wade því föstu að Ísland yrði ekki fjármálamiðstöð og landsmenn yrðu því að leita annarra leiða til að bæta sér upp störfin sem hurfu í bönkunum. Ekki lagði Vefþjóðviljinn sig eftir hvaða störf fyrir landann Wade sér fyrir sér. Það hafa vafalaust verið störf í „þekkingariðnaði“ eða „skapandi greinum“ fyrir „vel menntað fólk“ því hver vill lýsa skýjaborgum með störfum fyrir hugmyndasnauða kjána?
En nú spyr Vefþjóðviljinn, hví ætti einhver prófessor í hagfræði úti í heimi að hafa vit á því hvernig 319 þúsund Íslendingar ætla að framfleyta sér næstu árin og áratugina? Og jafnvel þótt hann væri staðsettur í hús hér á landi?
Hver getur til að mynda fullyrt með vissu að hér verði ekki blómleg fjármálastarfsemi innan tíðar? Það er að vísu ólíklegra en ella á meðan við völd er ríkisstjórn sem hækkar skatta á slíka starfsemi án afláts og gefur út gjaldmiðil sem ekki er mögulegt að skipta í aðra nema með sérstöku leyfi úr óþörfum seðlabanka landsins.
Það er nefnilega þannig að það eru störfin sem verða til sem skipta máli, ekki þau sem kjaftað er um í sjónvarpsþáttum.