Laugardagur 18. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 49. tbl. 16. árg.

Það er eðlilegt að menn vilja reyna að draga lærdóm af því fjármálahruni sem varð á Íslandi og flestum öðrum vestrænum ríkjum á síðustu fjórum árum.

Sumir vilja að vísu aðeins nota þessa atburði til að tengja þá við andstæðinga sína í stjórnmálum. Þannig hefur „frjálshyggja“ verið tengd við skipbrot hinna ríkisreknu peningamála, hvort sem litið er til Íslands þar sem miðhægrivinstriflokkastjórnir höfðu farið með völd, Bretlands þar sem broskratar Blairs fóru með stjórn mála eða Spánar þar sem sósíalistar Zapateros svifu um í lánsfjárbólunni í átta ár áður en hún sprakk.

Auðvitað er hægt að bregða ýmsum mælikvörðum á hvert þjóðfélög stefna. Flestir segja auðvitað aðeins hluta sögunnar. Einn sem kemur til greina er hve stórt hlutfall hinnar svonefndu landsframleiðslu hið opinbera hrifsar til sín með sköttum og öðrum ráðum.

Mætti ekki með nokkurri einföldun segja að þar sem þetta hlutfall lækki stefni þjóðfélag í átt að frjálshyggju en þar sem það hækki hafi frjálshyggjan orðið undir?

Á árunum fyrir fjármálahrunið á Íslandi tók hið opinbera, ríki og sveitarfélög, sífellt stærri hlut. Hæst í sögu þjóðarinnar varð hlutfallið á árunum þremur fyrir hrunið.