Vefþjóðviljinn 45. tbl. 16. árg.
Íslensk fyrirtæki mega ekki styrkja stjórnmálaflokka eða frambjóðendur um meira en 400 þúsund krónur á ári og verða að upplýsa um það. Einstaklingar mega ekki styrkja flokka umfram 200 þúsund krónur. Um leið fá þeir stjórnmálaflokkar sem eiga kjörna fulltrúa á þingi eða sveitarstjórnum tröllsleg fjárframlög frá hinu opinbera.
Það er uggvænlegt ef slíkar aðgangshindranir gagnvart nýjum framboðum standast stjórnarskrá. Verst að enginn hefur látið á það reyna.
Og stjórnmálabarátta fjármögnuð með frjálsum framlögum stendur ekki aðeins andspænis ofurefli hinnar ríkisreknu umræðu á þingi og sveitarstjórnum, að ógleymdu ríkisstjórnarútvarpinu.
Nú hefur verið tilkynnt að samband erlendra ríkja ætli að blanda sér með beinum hætti í þjóðmálaumræðuna hér á landi.
Evrópusambandið ætlar á verja allt að 226 milljónum króna til áróðurs fyrir máli sem óvænt var sett efst á verkefnalista ríkisstjórnar Samfylkingar og VG eftir síðustu kosningar. Grunlausir kjósendur greiddu VG atkvæði sitt í trausti þess að hinir miklu hugsjónamenn flokksins myndu varla hlaupast undan merkjum í þessu máli. Enda hafði enginn flokkur áhuga á að mynda um þetta stjórn með Samfylkingunni og þrýstingurinn því enginn. Alveg ótrúleg framkoma og kjósendur VG væru gáttaðastir manna á norðurhveli jarðar ef ekki væri fyrir stuðningsmenn Gaddafís sem þótti þátttaka Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í loftárásum á sig óvænt og ekki hafa hlotið faglegt umhverfismat.
Til eru sérstök lög um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi.
Ef að þeim er ætlað að koma í veg fyrir að erlend ríki hafi áhrif á stjórnmálastarf hér á landi er ekki allt eins gott að fella þau úr gildi ef þau girða ekki fyrir að erlend ríki opni áróðursskrifstofu í Reykjavík og Akureyri og verji milljónum króna á viku í eitt eða tvö ár í þágu ákveðins máls sem er til umfjöllunar á Alþingi og fer jafnvel í þjóðaratkvæði?