Vefþjóðviljinn 43. tbl. 16. árg.
Það hefur verið gaman að fylgjast með viðbrögðum álitsgjafa Samfylkingarmanna við nýjum meirihluta í bæjarstjórn Kópavogs. Það er svo gaman þegar þeir sýna heiftina sem svo stutt er í hjá þeim.
Í huga Samfylkingarmanna fjölmiðlanna hefur oddviti svokallaðs Lista Kópavogsbúa drýgt mikla synd. Oddvitinn leyfði sér að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.
Samfylkingarmenn fjölmiðlanna og siðavöndu álitsgjafarnir eru alveg bálvondir yfir því. Og sýna um leið hvernig þeir líta á öll „nýju framboðin“.Nýju framboðin eiga að vera varadekk fyrir gömlu vinstriflokkana, ef vinstri flokkarnir þurfa á þeim að halda. En annars ekki.
Eftir síðustu kosningar fór Listi Kópavogsbúa þegar í samstarf með vinstriflokkunum. Sá meirihluti sprakk, og það var ekki Listi Kópavogsbúa sem sprengdi þann meirihluta. Vinstrimennirnir töldu sér hins vegar óhætt að sprengja hann, því í þeirra heimi þá eru „nýju framboðin“ varadekk fyrir vinstriflokkana en mega ekki hugsa sjálfstætt.
Vinstriflokkunum og álitsgjöfunum þeirra finnst að Listi Kópavogsbúa hafi aðeins tvo leyfilega kosti: Annað hvort tryggi hann vinstrimönnum völd með því að vera í samstarfi með þá, en verði ella áhrifalaus í minnihluta. Listi Kópavogsbúa megi ekki mynda neinn meirihluta með öðrum – og þá allsekki með þeim sama Sjálfstæðisflokki og Samfylking og Vinstrigrænir voru sjálfir að reyna að mynda meirihluta með fyrir hálfum mánuði.
Hjálmar Hjálmarsson leikari, sem náði að stökkva inn í bæjarstjórn á frakkalafi Jóns Gnarrs, skrifar nú hverja greinina á fætur annarri í Morgunblaðið um að Sjálfstæðisflokkurinn, og einkum einn bæjarfulltrúa hans, sé ótækur til samstarfs. Sami Hjálmar hafði tveimur vikum áður sett fram hástemmdar tillögur um að allir bæjarfulltrúarnir ellefu mynduðu „þjóðstjórn“ í bæjarstjórninni. Allir ættu að starfa saman og enginn að vera í minnihluta. Það var ekki fyrr en í ljós kom að Hjálmar yrði ekki með í meirihlutanum sem Hjálmar komst að því að það gengi bara alls ekki að Sjálfstæðisflokkurinn fengi að vera í meirihluta.
Hvernig er þetta í þinginu? Stjórnarherrarnir telja sig eiga kröfu til þess að þingmenn Borgarahreyfingarinnar, hverju nafni sem hún nefnist hverju sinni, séu alltaf til taks til að draga ríkisstjórnina að landi. Þeir heimtuðu að Framsóknarflokkurinn byggi til minnihlutastjórn vinstriflokkanna, án þess þó að fá aðild að henni. Framsóknarflokkurinn var nógu góður til að leggja til atkvæði í þinginu, en að öðru leyti gat hann átt sig. Og eftir kosningar, um leið og vinstrimenn þurftu ekki á honum að halda, var honum sagt að halda kjafti. Siv er samt alltaf til taks, ef Samfylkingunni liggur mikið við.
Í Reykjavíkurborg er þess krafist að Besti flokkurinn tryggi Degi Eggertssyni völd og áhrif, þrátt fyrir að Samfylkingin hafi aðeins þrjá borgarfulltrúa af fimmtán. Menn ættu að ímynda sér hávaðann sem yrði og reiðina ef Besti flokkurinn gengi til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn, sem þó hefur mun meira fylgi en Samfylkingin. Hvernig var þetta ekki þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var sprengdur, eftir að sjálfstæðismenn stöðvuðu REI ævintýrið? Skyndilega var bak við tjöldin myndaður vinstrimeirihluti, og vinstrimenn sáu ekkert athugavert við það. En þegar sá meirihluti sprakk nokkrum mánuðum síðar varð ekki fundafært í borgarstjórn fyrir öskrandi áhorfendum á pöllunum. Snaróðir vinstrimenn töldu sig sem fyrr hafa einkarétt á meirihlutamyndun og að aðrir ættu einfaldlega að sjá þeim fyrir þeim atkvæðum sem þá vantaði. Allt annað væru klækjastjórnmál. Þeir sem mynda meirihluta með vinstrimönnum fá að vera í friði, hinir fá á sig öskur, brýningar og reiða fréttamenn.