Laugardagur 21. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 21. tbl. 16. árg.

Einkahlutafélagavæðing ríkisstyrkja til stjórnmálaflokka fer fram að Suðurgötu 3.
Einkahlutafélagavæðing ríkisstyrkja til stjórnmálaflokka fer fram að Suðurgötu 3.

Þrátt fyrir að gömlu leynifélögin Alþýðuhús, Fjölnir, Fjálar og Sigfúsarsjóður hafi fallið Samfylkingunni í skaut eru aðrir íslenskir vinstriflokkar ekki af baki dottnir þegar kemur að fyrirtækjafléttum.

Haustið 2008 stofnaði Vinstrihreyfingin-grænt-framboð ásamt fleirum einkahlutafélagið Útgáfufélag Smugunnar ehf. Á meðan Samfylkingin býr í húsnæði Fjölnis, Fjálars og Sigfúsarsjóðs á Hallveigarstjóg 1 býr Útgáfufélagið Smugan ehf á skrifstofu VG við  Suðurgötu 3.

VG er stærsti hluthafinn í félaginu með 40,24%, Lilja Skaftadóttir útgefandi DV á 23,81%, Steingrímur J. Sigfússon 4,76% og Toshiki Toma 0,48%, svo nokkrir séu nefndir.

Á vef einkahlutafélagsins segir:

Smugan er sjálfstæður vefmiðill, með hjartað á réttum stað. Þar er fjallað um málefni almennings óháð markaðsöflunum. Smuguna varðar mest um velferð, umhverfi, jafnrétti og frið í samfélaginu. Tilgangur Smugunnar er að leggja sitt að mörkum til lýðræðislegrar umræðu með því að veita þeim opinn vettvang sem ekki hafa átt greiðan aðgang að fjölmiðlum hingað til. Vefurinn er kostaður af Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og fjölmörgum einstaklingum.

Þarna er komið viðskiptalíkan hins nýja Íslands. Einstaklingar í réttum flokki gerast hluthafar í nýju einkahlutafélagi . Flokkurinn greiðir svo rekstarkostnað, leggur til húsnæði og losar félagið við aðra leiðinlega mínusa sem vilja gera vart við sig í svona rekstri. Fé til þess skammtar flokkurinn sér sjálfur úr ríkissjóði.

Nú veit Vefþjóðviljinn ekki hvort það sé svo arðbært að selflytja fé úr ríkissjóði yfir í stjórnmálaflokk og þaðan í einkahlutafélag að Útgáfufélagið Smugan ehf geti flutt peninga skattborgaranna til hluthafa sem arð. En ef það er gert eða gerist fá Lilja Skaftadóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Toshiki Toma öll sinn hlut. Þetta er þó óljóst. Því miður hefur Útgáfufélagið Smugan ehf ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2010. Það bara gleymdist í önnunum við að gera bókhaldið gagnsætt og bera það allt upp á borð. 

En hvað sem hefðbundnum arðgreiðslum líður fá starfsmenn einkahlutafélagsins sín laun frá skattgreiðendum í gegnum þetta snotra þvottahús. 

Þetta fyrirkomulag hefur fleiri kosti. Þarna eru vinstri grænir búnir að setja upp apparat sem getur tekið við styrkjum umfram þennan 300 þúsund kall sem leyfilegur er til stjórnmálaflokka. En ekki síður tekið við styrkjum sem flokknum þykir óþægilegt að taka við sjálfur. Það verða því vonandi engir neyðarlegir styrkir frá álverum og nektardansstöðum sem skjóta upp kollinum í bókhaldi flokksins í framtíðinni.