Fimmtudagur 19. janúar 2011

Vefþjóðviljinn 19. tbl. 16. árg.

Jóhanna vildi skrúfa fyrir fé til lögreglu og ákæruvaldsins í Baugsmálum. Hún vill hins vegar ekki hafa afskipti af ákæruvaldinu í landsdómsmálinu sem hún er þó hluti af sjálf.
Jóhanna vildi skrúfa fyrir fé til lögreglu og ákæruvaldsins í Baugsmálum. Hún vill hins vegar ekki hafa afskipti af ákæruvaldinu í landsdómsmálinu sem hún er þó hluti af sjálf.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mun hafa efasemdir um að Alþingi megi hafa afskipti af dómskerfinu með því að draga til baka ákæru gegn Geir Haarde fyrir landsdómi. En Alþingi er hluti af dómskerfinu í þessu máli. Alþingi er ákærandinn í landsdómsmálum. Alþingi getur, eins og hvert annað ákæruvald, fallið frá ákæru.

En það kemur hins vegar nokkuð á óvart að Jóhanna hafi áhyggjur af sjálfstæði dómskerfisins. 

Jóhanna, sem þekkt var fyrir allt annað til tillögur um sparsemi hjá opinberum stofnunum, óttaðist mjög að lögreglan og ákæruvaldið hefðu úr of miklum fjármunum að moða úr vegna svonefndra Baugsmála fyrir nokkrum árum. Hún lagði fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra í febrúar 2007 sem hét einfaldlega:  „Fyrirspurn til dómsmálaráðherra um kostnað ríkisins við rannsókn og rekstur Baugsmálsins.“ Björn Bjarnason skrifar í bók sína Rosabaugur yfir Íslandi að Jóhanna hafi talið „að huga bæri að því að fella niður frekari málarekstur gegn Baugsmönnum vegna kostnaðar.“  Björn getur þess einnig að Össur Skarphéðinsson hafi lagst á sömu sveif. Össur hafi í Kastljósi 17. mars 2006 sagt um yfirmenn embættis ríkislögreglustjóra að þeir væru „skaðlegir fyrir réttarríkið.“

Svo gerðist það fyrir ekki svo löngu að hæstiréttur dæmdi kosningar til svonefnds stjórnlagaþings ógildar vegna margvíslegs klúðurs við framkvæmd þeirra.  Hvernig brugðust Jóhanna og Össur við þeim tíðindum? Fóru þau að ábendingum hæstaréttar og létu bæta úr þeim ágöllum sem réttarkerfið taldi á kosningunni og endurtaka hana? Ónei, skipt var um nafn en ekki kennitölu á samkomunni, þeir sem hlotið höfðu ógilda kosningu voru einfaldlega skipaðir í stjórnlagaráð og þáðu það allir nema einn. 

Kannski Jóhanna Sigurðardóttir beri nú skyndilega mikla virðingu fyrir dómskerfinu í landinu þegar hún sjálf er einn af 63 handhöfum ákæruvaldsins. Hún vill ekki að hún hafi óeðlileg afskipti af sjálfri sér.