Vefþjóðviljinn 18. tbl. 16. árg.
Alveg er magnað hversu menn geta rætt mikilvægt mál af litlum skilningi.
Ákvörðun Alþingis um að Geir Haarde, fyrrverandi ráðherra, skuli dreginn fyrir landsdóm getur aðeins byggst á einu: Þeirri skoðun meirihluta alþingismanna að hann hafi framið nánar tiltekin brot og saksóknara Alþingis muni takast að sanna það fyrir rétti.
Þingmenn sem eru þessarar skoðunar, þeir áttu að samþykkja að ákæra Geir á sínum tíma, og það er eðlilegt að þeir greiði atkvæði gegn þeirri tillögu sem nú liggur fyrir um að fyrri samþykkt verði afturkölluð.
En þeir þingmenn sem ekki eru þessarar skoðunar, og þá breytir engu hvort þeir eru sannfærðir um sakleysi Geirs eða hafa einfaldlega ekki tekið afstöðu til þeirrar spurningar, þeir áttu ekki að greiða atkvæði með ákæru á hendur honum. Þeim ber einnig að greiða atkvæði með fyrirliggjandi tillögu um afturköllun ákæru. Sé handhafi ákæruvalds, í þessu tilfelli Alþingi, ekki þeirrar skoðunar að sök hins ákærða verði sönnuð fyrir dómi, þá má hann ekki ákæra. Þetta er grundvallaratriði.
Hér skiptir engu hvað mönnum finnst um aðra hluti. Einu rökin sem heimilt er að nota – því það er ekkert einkamál handhafa ákæruvalds hvernig hann fer með ákæruvaldið – eru þau, að menn telji meiri líkur en minni á því að Geir verði í raun sakfelldur fyrir dómi. Ákæra er ekki „uppgjör við bankahrunið“ eða „uppgjör við frjálshyggjuna“. Geir er ekki ákærður fyrir að vera frjálshyggjumaður eða fyrir að hafa verið „skipstjórinn á skútunni“. Menn geta ekki ákært einstakling af því að annars séu þeir „að afneita bankahruninu“ eða „vanvirða rannsóknarskýrsluna“. Ekkert af þessu er minnsta réttlæting fyrir ákæru. Það er einnig fullkomlega óheimilt að ákæra mann til þess að fá bara „skorið úr um sekt eða sakleysi“ hans. Þó einhver haldi að það sé nú bara betra fyrir Geir að „fá að leggja mál sín í dóm“, þá er það engin réttlæting heldur, jafnvel þótt þetta væri rétt og jafnvel þótt Geir fyndist það sjálfum og grátbæði um ákæru. Það er ekki heimilt að ákæra menn af greiðasemi við þá. – Svona eins og ef einhver heldur að Björn Valur Gíslason og þau séu að ákæra Geir til að gera honum greiða.
Þeir alþingismenn sem ætla að fara eftir einhverju öðru en grundvallarspurningunni hvort Geir hafi, með refsiverðum hætti, framið nákvæmlega þá háttsemi sem rakin er í ákærunni, og að það verði sannað fyrir dómi, þeir brjóta sjálfir af sér með alvarlegum hætti. Þeir mega þakka fyrir að eingöngu eru í gildi lög um ráðherraábyrgð en ekki lög um alþingismannaábyrgð.