Vefþjóðviljinn 17. tbl. 16. árg.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ritar grein í Morgunblaðið í dag. Þar lýsir hann yfir stuðningi við tillögu um að ákæruvaldið í Landsdómsmálinu, Alþingi, dragi ákæru sína á hendur Geir H. Haarde til baka.
Þetta rökstyður Ögmundur meðal annars með þessum orðum:
Reyndar tel ég að afdrifarík mistök hafi verið gerð við atkvæðagreiðslu um landsdómsmálið á Alþingi. Tillagan sem borin var undir Alþingi gekk út á að fjórir ráðherrar færu fyrir landsdóm, sem skyldi kanna hvort embættisfærslur þeirra stæðust lög um ráðherraábyrgð, tveir úr Sjálfstæðisflokki og tveir úr Samfylkingu. Atkvæðagreiðslan varð í höfuðdráttum eftir flokkslínum. Af hálfu stjórnarþingmanna greiddu þingmenn VG atkvæði með tillögunni í ýtrasta formi hennar en samfylkingarþingmenn greiddu ekki atkvæði á einn veg um alla þá einstaklinga sem í hlut áttu. Þegar upp var staðið varð niðurstaðan sú að aðeins einn maður skyldi ákærður, Geir H. Haarde.
Í mínum huga tók málið þarna eðlisbreytingu. Málaferli sem áttu að beinast að ábyrgð „stjórnmálanna“ á mistökum í aðdraganda hrunsins urðu með þessari atkvæðagreiðslu að málsókn gegn einum einstaklingi. Mistökin sem ég kalla svo, voru þau að stöðva ekki atkvæðagreiðsluna, þegar sýnt var að hún var að taka á sig afskræmda flokkspólitíska mynd, og gefa þingmönnum ráðrúm til að íhuga málið nánar.
Hér fá þeir þingmenn Samfylkingarinnar, sem settu á svið snautlegan leikþátt við atkvæðagreiðsluna um landsdómsmálið á Alþingi, þungt högg.
Með einstæðri fléttu við atkvæðagreiðsluna komu þeir sínum flokksmönnum örugglega undan pólitísku réttarhöldunum en aðrir máttu dingla.