Vefþjóðviljinn 15. tbl. 16. árg.
Eftir upplýsinguna, þar sem ráð konunga og trúarleiðtoga voru ekki lengur hafin yfir vafa, voru öll mannanna verk lengi talin ófullkomin. Allt þar snjallir menn komu því til leiðar að ríkið setti á legg margvíslegar eftirlitsstofnanir. Þá sannfærðust að því er virðist margir um að fram væri komin lausn á skeikulleika mannsins. Hann yrði leiðréttur jafnharðan og hann gerði mistök.
Jafnrétti tryggði jafnréttisstofa, lýðheilsa yrði almenn undir vökulu auga lýðheilsustofnunar, matvæli yrðu örugg með hersveit sérfræðinga á matvælastofnun á vaktinni, heilbrigði yrði loks alheilbrigt í boði heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna, umhverfið óspillt með umhverfisstofnun, samkeppni í algleymi vegna ötuls starfa samkeppniseftirlitsins, fjármálafyrirtæki færu sjálfum sér og öðrum ei lengur að voða vegna álagsprófa fjármálaeftirlitsins og neytendastofa gætti þessi að tregir neytendur keyptu sér ekki malakoff sem hefði verið verðmerkt af hinum illa framleiðanda og vinnueftirlitið tryggði að öllum liði vel við öll eftirlitsstörfin.
Svo fátt eitt sé nefnt.
Í mörgum tilfellum kom síðar í ljós að „eftirlitið brást“, eins og það er gjarnan kallað. Árum saman lét neytendastofa fávísa neytendur setja vörur í innkaupakörfuna sem framleiðandi hafði verkmerkt í neðra, fjármálafyrirtæki hérlendis og erlendis urðu afvelta í hundraðavís, alls kyns drasl og skítur hefur ratað upp í munn og ofan í maga almennings, óþverri rennur út í umherfið, aukahlutir leka, öryggisbúnaður bíla bilar, tæki stimpluð og vottuð í bak og fyrir bregðast er mest á reynir.
Já það er hrópað „eftirlitið brást“. Og vissulega má segja það, strangt til tekið. En eftirlit er nákvæmlega eins og önnur mannanna verk. Jafnvel þótt það sé oft unnið af fólki sem klæðist hvítum sloppum og flaggar háskólagráðum. Það er ófullkomið, eða hið minnsta ekki fullkomið.
Kannski má skýra þetta með litlu dæmi. Efnarannsóknastofur mæla eiginleika og innihald efna. Tugir rannsóknastofa geta fengið sama sýnið til rannsóknar en aðeins nokkrar þeirra fá nákvæmlega sömu niðurstöðu, jafnvel þótt þær noti allar stöðluð tæki og aðferðir til mælinganna. Hver mældi rétt? Engin! Það eina sem hægt er að segja með sanni um niðurstöðurnar er að þær voru misvitlausar. Vissulega má lýsa þeim nánar með tölfræðilegri dreifingu en það breytir því ekki að það er alltaf ákveðin óvissa til staðar.
Í flestum tilvikum eru eftirlitsstofnanir að fylgjast með miklu kvikari, grófari eða huglægari þáttum en efnarannsóknastofur mæla. Fjármálaeftirlitinu er til að mynda ætlað að sjá fram í tímann og kortleggja framtíð banka út frá þáttum sem breytast í sífellu, oft mjög hratt og engin leið er að mæla með sæmilegri nákvæmni líkt og afmarkað sýni á efnarannsóknastofu. Hugmyndin um fjármálaeftirlit sem forði bönkum frá þroti er því hreinir draumórar. Fjármálaeftirlitið á Íslandi fyrir bankahrunið 2008 brást því ekki heldur virkaði það nákvæmlega eins og við mátti búast af svo óraunhæfri starfsemi. Það kom ekki í veg fyrir hrun fjármálakerfisins heldur skapaði þvert á móti falskt öryggi. Engin býst við slíku allsherjarhruni á meðan eftirlitsstofnun ríkisins segir að bankar standist hver af öðrum „álagspróf“. Að því leyti er opinbert eftirlit af þessu tagi oft verra en ekki. Opinbera eftirlitið dregur úr árvekni einstaklingsins. Hann gengur að meiru vísu en efni standa til.
Hluti af þessari oftrú á eftirlitsstofnunum virðist vegna þess að menn ætla sér að nota aðferðir raunvísinda vítt og breitt um þjóðfélagið þar sem þær eiga alls ekki við. Með hagnýtingu raunvísinda hefur maðurinn náð ótrúlegum árangri, létt sér lífið með nýrri tækni og hrundið af sér alls kyns óværu. Það er því ef til vill ekki að undra þótt menn ofmetnist og telji sig geta leyst hvaða vanda sem er með því að mæla og prófa eins og læknar og eðlisfræðingar gera.
F.A. Hayek skrifaði heila bók The Counter-Revolution of Science fyrir 60 árum um þá öfugþróun sem varð þegar menn töldu hægt að væri að nota aðferðir raunvísindanna til að skoða og skipuleggja þjóðfélög, með öðrum orðum að miðstýra þeim. Það er alveg fráleitt að færa aðferðir raunvísindanna yfir í hugvísindin og vænta sama árangurs. Mannlífið er miklu fjölbreyttara og skemmtilegra en svo að hagfræðingar eða aðrir félagsfræðingar geti lýst því með hjálpartækjum raunvísindanna.
Vilja einstaklingsins, ákvörðun fjölskyldu eða hegðun fyrirtækja verður ekki lýst með reiknilíkani eða grafi. Einstaklingurinn er ekki útreiknanleg eða mælanleg eind á tilraunstofu.
En eins og ætíð þegar opinberum stofnunum mistekst að uppfylla fjarstæðukennd markmið sín verður því svarað með því að stækka þær og auka á óraunhæfar hugmyndir um getu þeirra til að gera okkur fullkomin.