Vefþjóðviljinn 5. tbl. 16. árg.
Í síðasta mánuði sagði Vefþjóðviljinn frá því að hann hefði hafið einhliða upptöku silfurs. Sem fyrsta skref pantaði hann eina únsu í Rothbard-silfurpeningi frá Alabama og gaf fyrir íslenskar krónur með greiðslukorti. Einhvers staðar á leiðinni hefur Már Guðmundsson skipt krónunum í Bandaríkjadali úr „vopnabúrinu“ eins og þessi gamli friðarseggur kallaði gjaldeyrisvaraforða seðlabankans í sjónvarpsfréttum í fyrrakvöld. Sennilega er það þó réttnefni að kalla þennan varaforða vopnabúr því hann er fenginn að láni. Ef seðlabankinn ætlar að notfæra sér vopnabúrið að ráði virkar það í raun eins og að bera eld að því. Bankinn gæti orðið sá fyrsti til að springa í loft upp. Það er gamalt herkænskubragð frá Maó að brenna allar brýr að baki sér.
Í gær kom tilkynning frá ríkispóstþjónustunni um að silfurmyntin væri komin til landsins og biði á næsta pósthúsi ríkisins, rétt eins og hver önnur bók sem þegnarnir panta frá útlandinu. Fulltrúi Vefþjóðviljans mætti á pósthúsið, sveittur af spenningi yfir því að sæta ströngum yfirheyrslum starfsmanna gjaldeyriseftirlits seðlabankans, því nú um stundir eru flestir slíkir opinberir embættismenn huggulegar ungar konur, verkefnastjórar með fartölvur. En ekki gamlir fúlir karlar, fulltrúar með sjálfkalkerandi í þríriti, sem gerðu höftin um miðja síðustu öld svo óbærileg.
Fátt bar þó til tíðinda á pósthúsinu annað en að ríkið lagði 25,5% virðisaukaskatt á myntina en Steingrímur J. Sigfússon hækkaði skattinn úr þeim hlálegu 24,5% sem menn komust upp með að greiða í landi nýfrjálshyggjunnar fyrir bankahrun. Silfurúnsa þessi var þá með flutningi og gjöldum komin yfir 8.000 krónur en heimsmarkaðsverð á silfurúnsu er um 3.600 krónur. Ekki gæfuleg viðskipti ef menn meta allt í krónum og aurum. En þeim sem eru byrjaðir að taka upp silfur er nokk sama um pappírspeningana sem ríkið gefur út með loforði um það eitt að menn geti fengið annað alveg eins pappasnifsi þegar þeir framvísa þeim hjá útgefanda.
Það veit enginn fyrr en hann hefur reynt hvernig er að vera með nýja skínandi silfurúnsu upp á vasann – í miðjum gjaldeyrishöftum.