Miðvikudagur 4. janúar 2011

Vefþjóðviljinn 4. tbl. 16. árg.

Kanntu hnjóðsyrði um fjórflokkinn? Velkominn í settið.
Kanntu hnjóðsyrði um fjórflokkinn? Velkominn í settið.

Starfsmenn ríkisfjölmiðlanna hafa margir hverjir áhuga á nýjum þingframboðum. Margir þeirra sjá líklega í þeim möguleikann til að halda vinstrimönnum við völd, þótt sístækkandi hópur kjósenda styðji vinstriflokkana ekki lengur. En með nokkrum framboðum, þar sem vinstrimennskan verður falin fyrir kosningar með innantómum frösum, megi svo efna til nýrrar vinstristjórnar eftir kosningar, eftir stuttar gervistjórnarmyndunarviðræður.

Í dag gerði fréttastofa Ríkissjónvarpsins langa frétt um ný framboð sem væru væntanleg við kosningar eftir fimmtán mánuði. Í kastljósi Ríkissjónvarpsins var síðan langt einkaviðtal við Guðmund Steingrímsson.

Vefþjóðviljinn vill hér reyndar gera þá játningu að hann horfði á viðtalið við Guðmund. Hljóðið var ekki á, og þegar Guðmundur birtist á skjánum, sjaldséður hvítur hrafn þar, þá þótti Vefþjóðviljanum engin sérstök ástæða til að setja það á aftur. Hann kann því að hafa farið á kostum með öflugri hugmyndafræði, byggðri á langmótaðri lífsskoðun og þekkingu. En það er þó ekki víst.

Samfelldur áhugi fjölmiðlamanna á Guðmundi Steingrímssyni og öðrum þeim sem enn hafa ekkert sérstakt haft fram að færa til stjórnmálaumræðunnar, er dæmi um hversu íslensk þjóðmálaumræða er yfirleitt þunn. Fréttamönnum er alveg sama þótt Guðmundur hafi aldrei fært neitt fram sem veigur er í. Hann klauf flokk og fær þess vegna þá athygli sem hann vill. Hann er „gegn fjórflokknum“, sem mörgum þykir mjög flott og til marks um að menn séu klárir og hlusti á Björk. Engum dettur í hug að tala daglega við til dæmis Birgi Ármannsson, Einar K. Guðfinnsson eða Gunnar Braga Sveinsson um það hversu þeir séu betur gerðir en aðrir menn, víðsýnni og nútímalegri. En ef þeir færu hins vegar í sérstakt framboð, sem snerist í fyrsta lagi um þeirra eigin persónu og í öðru lagi um niðurstöður nýjustu skoðanakannana, ásamt því sem þeir gerðu lítið úr öllum öðrum sem starfað hafa að stjórnmálum síðustu áratugina, þá yrðu þeir kannski tíðir gestir sjónvarpsþáttanna. 

Ef menn eru aðeins til í að segja eitthvað ljótt um „fjórflokkinn“, þá þurfa þeir bara að mæta í smink og svo hefst útsendingin.