Þriðjudagur 3. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 3. tbl. 16. árg.

Ríkissjónvarpið auglýsir nú af kappi sýningu myndarinnar Inside Job sem er á dagskrá stöðvarinnar annað kvöld. Myndin er skemmtiefni á köflum þótt hún sé einnig full af ranghugmyndum og hreinum vitleysum. Vefþjóðviljinn skrifaði um myndina á síðasta ári og sagði þar meðal annars: 

Charles Ferguson og félagar hafa augljóslega ætlað sér að segja glæpasögu og negla nokkra auðróna af Wall Street á hvíta tjaldið í lokin. Það gengur nú svona og svona. Verðbréfasalar og bankamenn sem seldu skuldabréfavafninga sem þeir vissu að voru svo gott sem ónýtir eru auðvitað ekki sérlega upplitsdjarfir þegar þeir svara spurningum um það efni fyrir þingnefndum. Háskólaprófessorar eins og Frederic Mishkin, félagi Tryggva Þórs Herbertssonar, eru hafðir að háði og spotti, en ekki er hægt að segja að það sé óverðskuldað. Richard Portes, félaga Friðriks Más Baldurssonar, er ekki heldur riðið heim til Hóla. Viðskiptaráð Íslands hefur beðist velvirðingar á því að hafa fengið þessa menn til að skrifa skýrslur um íslenskt efnahagslíf fyrir furðulegar fjárhæðir. Einhver sem hefði veitt svo fráleita ráðgjöf, sem þessir hagfræðingar gerðu, hefði séð sóma sinn í að skila þóknuninni. Ekki hefur hvarflað að íslenskum fjölmiðlum, hvað þá Viðskiptaráði sjálfu, að viðra slíka hugmynd við Tryggva Þór og Friðrik Má. Ólíklegt má telja að hún komi frá þeim sjálfum.

Í Inside Job kemur skýrt fram að mikil lánsfjárbóla var blásin upp á árunum fyrir hrunið, allir gátu keypt allt fyrir lánsfé. Engin tilraun er þó gerð í myndinni til að leita uppruna hins auðfengna lánsfjár. Hvaðan kom allt loftið í bóluna? En þótt Ferguson og félagar telji bóluna hafa verið af hinu illa eru þeir einnig mjög ósáttir við að menn hafi leyft loftinu að leka úr henni. Þá hafi komið í ljós að menn gátu ekki greitt af ofboðslegum lánum og menn misst fyrirtæki sín og heimili, sem sé ekki gott. Þessi þversagnakenndi málflutningur kemur berlega í ljós í hneykslan þeirra yfir því að ýmsum bönkum hafi verið bjargað en um leið er það harðlega gagnrýnt að Lehman Brothers skyldi vera leyft að rúlla með öllum þeim neikvæðu afleiðingum sem það hafði fyrsta kastið.

Vandamálið sem blasir við er ekki að bankamenn hagi sér heimskulega og bankar verði gjaldþrota. Gjaldþrot eru nauðsynleg frjálsum markaði. Vandamálið er að ríkisvaldið hefur ákveðið að vera í aðalhlutverki á fjármálamarkaði; gefa út gjaldmiðla, setja reglur, hafa eftirlit, hlutast til um innlánstryggingar, lána til þrautarvara og almennt forða oss frá illu.

Jafnvel nú þegar hvert ríkið á fætur öðru sligast undan byrðum fjármálakerfisins heita menn þess helst að framvegis muni ríkið taka enn meiri ábyrgð á öllu klabbinu með fleiri reglum, meira eftirliti, hærri innlánstryggingum, stærri gjaldeyrisforðum og þrautarvarasjóðum.

Hafa menn þá ekkert lært, kann einhver að spyrja. Jú vafalaust, en á móti kemur að allar svona krísur eru gott færi fyrir stjórnmálamenn og eftirlitsstofnanir til að gera sig breið og tryggja sér aukin völd og fjármuni – til að koma í veg fyrir næstu krísu. Það vegur einfaldlega þyngra. Allt það lið er á launum ár og síð við að réttlæta tilvist sína.

Laissez-faire hefur sjaldan verið jafn viðeigandi krafa og nú um ríkisvaldið og fjármálakerfið. Látiði fjármálafyrirtækin í friði. Leyfiði bönkunum að fara sér að voða. Lofið að bjarga þeim ekki.