Mánudagur 2. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 2. tbl. 16. árg.

Jóhanna hefur náð slíkri leikni í baktjaldamakkinu að hún rennur saman við tjöldin.
Jóhanna hefur náð slíkri leikni í baktjaldamakkinu að hún rennur saman við tjöldin.

Formenn ríkisstjórnarflokkanna virðast hafa komið sér upp nýju skipulagi, sem áður hefur verið óþekkt í samsteypustjórnum: Ef ég má henda einum út af þínum mönnum, þá mátt þú henda út einum af mínum.

Eðli málsins samkvæmt þá eru, samkvæmt þessari reglu, þeir líklegastir til að fara sem helst hafa farið í fínar taugar forystu samstarfsflokksins. Hafa jafnvel verið tregir til að svíkja öll loforð eigin flokks, bara til að þóknast hinum. Regla eins og þessi, ætti að kenna mönnum að vera ekki með neitt múður, þegar kemur að því að svíkja eigin kjósendur.

Þau Jóhanna og Steingrímur, sem um áramótin fengu bæði að henda út einum frá „samstarfs“-flokknum, voru spurð um áhrif ráðherrabreytinga á stjórnarsamstarfið. Auðvitað sögðu þau bæði að breytingarnar myndu „styrkja stjórnina“. Varla gátu þau sagt neitt annað. Þau höfðu barið þetta í gegn – Steingrímur auðvitað mjög dapur eins og venjulega – svo ekki var við því að búast að þau viðurkenndu að breytingarnar væru fyrst og til þess að auðvelda Steingrími að svíkja öll sín grundvallarloforð, hvað svo sem stuðningsmenn flokksins segðu.

En hvers vegna ætli fréttamenn hafi ekki spurt frekar? Hvernig styrkir þetta stjórnina? Er stjórnin sterkari, nú þegar tveimur ráðherrum hefur verið kastað út úr henni? Ef Árni Páll Árnason yrði aftur ráðherra og Steingrímur færi aftur í fjármálaráðuneytið, yrði núverandi ríkisstjórn þá aftur veikari? Hvernig verður stjórnin beinlínis sterkari en hún var, nú þegar tveimur ráðherrum hefur verið kastað út, eftir harðar deilur fyrir framan og bak við tjöldin? 

En fréttamenn spurðu einskis af þessu. Þeir spurðu bara hvaða áhrif breytingarnar hefðu og fengu þau svör að nú hefði ríkisstjórnin styrkst.