Vefþjóðviljinn 360. tbl. 15. árg.
Þeir sem urðu fyrir því að fá ekki ævisögu Keiths Richards í jólagjöf, og eiga þá líklega hvorki vini né lesefni, geta nú bætt úr því síðarnefnda því vetrarhefti tímaritsins Þjóðmála er nú dottið inn um bréfalúgur áskrifenda og í hillur Bóksölu Andríkis.
Meðal efnis í þessu hefti má nefna yfirgripsmikla úttekt Þjóðmála á áformum Kínverjans Huang Nubos til að eignast jörðina Grímsstaði á fjöllum, og er þar meðal annars farið yfir frásagnir erlendra fjölmiðla af málinu og viðbrögð íslenskra stjórnvalda. Er mál þetta allt hið furðulegasta, og varð ekki skiljanlegra þegar hálf ríkisstjórnin kvaðst ætla að hefja sérstakar viðræður við þennan ágæta Kínverja, eftir að hinn helmingurinn hafði neitað að veita honum undanþágu frá íslenskum lögum.
Óli Björn Kárason varaþingmaður fjallar um þann hringlandahátt og úrræðaleysi sem einkennt hefur stefnu vinstristjórnarinnar í atvinnumálum. Hvar sem litið er blasir við skert samkeppnishæfni Íslands og erlendir fjárfestar forðast landið. En það eina sem álitsgjafarnir sjá athugavert við gang mála er að full hægt gangi að eyðileggja undirstöður sjávarútvegarins, þótt Ólína reyni drengilega.
Flestir þeir sem ekki starfa í utanríkisráðuneyti Íslands vita að Evrópusambandið stendur að minnsta kosti á krossgötum og óvíst að allar áttir liggi þaðan til framtíðarlífs. Björn Bjarnason, sem orðinn er einn helsti sérfræðingur Íslands í Evrópumálum, enda ekki kennari á Bifröst, fjallar um þann mikla vanda sem þar blasir við og hvaða leiðir komi þar helst til greina. Fjallar hann einnig um aðildarumsókn Samfylkingarinar að Evrópusambandinu í því samhengi.
Mikill fjöldi annarra greina er í Þjóðmálum, um stjórnmál, menningarmál og nýútkomnar bækur. Ársáskrift að Þjóðmálum kostar 4.500 krónur en stakt hefti 1.300 krónur. Hvort tveggja má fá í Bóksölu Andríkis.