Vefþjóðviljinn 352. tbl. 15. árg.
Jafnan þegar stjórnvöld taka ákvörðun um að endurgreiða virðisaukaskatt eða lækka skatta af ákveðnum vörum eða þjónustu er fullyrt að það hafi jákvæð áhrif á viðkomandi atvinnugrein. Þetta á til að mynda við um endurgreiðslu virðisaukaskatts af kvikmyndagerð og viðhaldi iðnaðarmanna í heimahúsum. Jafnvel Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra taldi síðarnefndu aðgerðina svo væna að hann kallaði hana „allir vinna“.
Þetta leiðir hugann að því hvers vegna skattalækkanir hafi ekki verið eitt helsta húsráð vestrænna ríkisstjórna í fjármálakreppunni undanfarin ár. Þvert á móti hafa þær heldur lagt áherslu á alls kyns „innspýtingar“ fjármagns í gegnum fjármálakerfið og allir vita að fyrr en síðar leiða slíkar aðgerðir til skattahækkana ásamt því að ríkissjóðir sitja í skuldafeni.
Nú hefur IEA í Englandi gefið út ritið Crises of Governments – The Ongoing Global Financial Crisis and Recession eftir Robert Barro. Þar vekur Barro athygli á því að þegar kreppan nú er borin saman við niðursveiflur snemma á níunda og tíunda áratug síðustu aldar gangi afar hægt að koma hjólum atvinnulífsins af stað að nýju.
Barro segir að ein meginástæða kreppunnar séu skuldabréfavafningar þar sem áhættusöm skuldabréf voru seld í vafningum sem bréf með litla áhættu. Hið opinbera hafi ýtt mjög undir þessa þróun og tvær ríkisstofnanir sem beri mikla ábyrgð á þessu, Fannie Mae og Freddi Mac, beri að einkavæða.
Barro segir einnig að þótt aukin ríkisútgjöld geti örvað efnahagslífið til skamms tíma dragi þau þrótt úr atvinnulífinu þegar til lengri tíma er litið. Þetta sé einmitt vandamálið nú. Ef menn telji sig hafa svigrúm í ríkisfjármálum eigi að nýta það til að lækka skatta.
Hann vekur jafnframt athygli á því að bæði George W. Bush og Obama hafi aukið ríkisútgjöld og stækkað velferðarkerfið. Þannig reið nú nýfrjálshyggjan húsum í upphafi 21. aldar.
Barro telur að nú taki við kreppa hinna skuldugu ríkissjóða. Skuldirnar séu bæði hefðbundin lán en ekki síður alls kyns réttindi, félagsleg réttindi og eftirlaunaréttur, sem hafi verið aukin mjög í tíð Bush og Obama.