Vefþjóðviljinn 351. tbl. 15. árg.
Nú er Samfylkingarforystan hreinlega að fara á taugum. Öðrumegin er leikritið sem hún hefur fengið að leika ótrufluð í rúmt ár, að hún hafi hvergi komið nálægt þegar Geir Haarde var dreginn fyrir landsdóm. Hinumegin er mál sem forystu vinstrigrænna er í raun heilagt: ofsafengt hatur og hefndarþorsti á Sjálfstæðisflokknum og forystumönnum hans. Hvoru á nú að fórna?
Fyrir ári var leikinn ógeðfelldur leikur þegar Samfylkingin nýtti sér græskuleysi sjálfstæðismanna, taldi út atkvæðin og hagaði svo atkvæðagreiðslu þannig að Geir Haarde var dreginn fyrir landsdóm en mínútu síðar var fellt að láta Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fara sömu leið. Forysta Samfylkingarinnar lét opinberlega eins og þessi niðurstaða væri henni mjög á móti skapi, en flestir sjá hversu mikið er að marka það, því ekkert sjá ráðherrar Samfylkingarinnar að því að sitja í ríkisstjórn með mönnum sem höfðu forgöngu um málið. Jóhanna Sigurðardóttir sagði opinberlega að engin ástæða hefði verið til að ákæra Geir, en sér ekkert að því að menn, sem standa fyrir því sem hún kallar tilefnislausa ákæru, sitji í ráðherrastólum.
Nú situr Samfylkingarforystan hins vegar uppi með málið, eftir að Bjarni Benediktsson hefur lagt til að Alþingi samþykki að það vilji draga ákæruna til baka. Nú fær Samfylkingarforystan tækifæri til að sýna að hún hafi í raun meint eitthvað með því þegar hún sagðist vera á móti þeirri samþykkt sem gerð var í fyrra.
En er málið ekki „úr höndum alþingis“? Er ekki verið að „ógna þrígreiningu ríkisvaldsins“ með því að „alþingi blandi sér í dómsmál“?
Nei, í þessu tilviki er því ekki svo varið.
Hér vill svo til að ákærandinn í málinu er alþingi. Alþingi á beinlínis að sinna málinu. Alþingi hóf málið. Með málið fer sérstakur saksóknari alþingis í umboði þess, af þeirri augljósu ástæðu að ekki gengur að þeir þrjátíuogþrír þingmenn sem samþykktu ákæruna mæti sjálfir í dómsal og sinni verkinu.
Alþingi er einfaldlega ákærandinn, rétt eins ríkissaksóknari er í venjulegum málum. Og ríkissaksóknari getur hvenær sem hætt við þá ákæru sem hann hefur gefið út. Fyrir slíku eru auðvitað mörg fordæmi. Það er sérstaklega tekið fram í lögum að ákærandi geti afturkallað ákæru alveg þar til dómur er kveðinn upp, eins og Bjarni Benediktsson benti á í kastljósviðtali í gærkvöldi. Í þessu máli er alþingi ákærandinn og getur því, hvenær sem því sýnist, afturkallað ákæru sína. Slíka ákvörðun tekur alþingi auðvitað með þingsályktunartillögu, svo formsins vegna er ekkert að þeirri tillögu sem Bjarni Benediktsson hefur lagt fram.
Og þar sem ekkert er formlega að tillögunni, hún er fullkomlega þingtæk, og þar sem alþingi hefur sem ákærandi fulla heimild til að afturkalla ákæru sína, þá er eina spurningin þessi: Hvað vill Samfylkingarforystan í raun? Stendur hún í raun á bak við þá ákvörðun að ákæra Geir Haarde en ekki Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur?
Og af því að fréttamenn og aðrir Samfylkingarmenn hafa spurt hver á fætur öðrum af hverju Bjarni hafi ekki lagt tillögu sína fram fyrir nokkrum vikum, þá geta menn velt fyrir sér hvernig umræðan hefði þá orðið. Þá hefðu allir sagt að Bjarni væri eingöngu að þessu til að styrkja stöðu sína meðal almennra sjálfstæðismanna vegna landsfundar.