Föstudagur 16. desember 2011

Vefþjóðviljinn 350. tbl. 15. árg.

Byggingaræði og skógrækt Reykvíkinga veita skjól gegn stormum.
Byggingaræði og skógrækt Reykvíkinga veita skjól gegn stormum.

Í síðustu viku var sagt frá því í Landanum og fréttum Ríkissjónvarpsins að aukinn gróður og meiri byggð í borginni hefði að öllum líkindum slegið niður storma á mælingatúni veðurstofunnar við Öskjuhlíð. Á síðustu árum hefur stormum í Reykjavík því snarfækkað. Það hefur hins vegar ekki gerst á Keflavíkurflugvelli þar sem fátt er til skjóls. 

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur, annar viðmælenda Landans, gerði því einnig skóna að með skógrækt í suðurhlíðum Esjunnar og á Álfsnesi mætti drepa niður norðanvind sem steypist niður hlíðar Esjunnar og gerir mönnum lífið leitt.

Þetta eru mjög áhugaverð tíðindi þar sem eitt af því sem hótað hefur verið með auknum gróðurhúsaáhrifum er hærri tíðni ofsaveðurs. Nú virðist sem ýmislegt brölt mannsins, byggingar og skógrækt, geti unnið gegn óveðrinu rætist svartsýnisspár áhangenda gróðurhúsaguðsins.

Og í skógrækt skiptir máli að það sé hlýtt.

Í framhaldi af þessum athugunum á áhrifum gróðurs og bygginga á vindafar hlýtur að fylgja pæling um áhrifin á hita. Hvaða áhrif hefur skjólið, sem drepur svo glatt niður storma, á hita í borgum og bæjum?

Því hefur nefnilega stundum verið haldið fram að hluta þeirrar hækkunar á hita sem menn rekja til gróðurhúsaáhrifa megi skrifa á reikning íbúðarhúsaáhrifa.