Fimmtudagur 15. desember 2011

Vefþjóðviljinn 349. tbl. 15. árg.

Vefþjóðviljinn hefur hafið einhliða upptöku Rothbard silfurpeninga.
Vefþjóðviljinn hefur hafið einhliða upptöku Rothbard silfurpeninga.

Íslendingum er sem kunnugt er bannað að skipta íslensku krónunni í erlendan gjaldeyri nema við sérstakar aðstæður, til dæmis ef menn starfa í umhverfisráðuneytinu og þurfa nauðsynlega að komast í minningarathöfn um Kyoto-sáttmálann í Durban.

Í gjaldeyrislögunum er erlendur gjaldeyrir skilgreindur svo:

Erlendur gjaldeyrir merkir erlenda peningaseðla, slegna peninga, tékka og aðrar ávísanir, víxla og önnur greiðslufyrirmæli sem hljóða upp á greiðslu í erlendri mynt, minnispeninga, gull, silfur og aðra dýra málma ef þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum erlendis.

Alþingi gerir með öðrum orðum ráð fyrir að gull, silfur og aðrir góðmálmar séu ekki endilega notuð sem skiptimynt í viðskiptum.

Minnispeningar virðast til að mynda ekki háðir gjaldeyrishöftum svo lengi sem þeir eru „ekki notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum erlendis.“

Það er því bannað að skipta íslensku krónunni í aðra pappírspeninga eins og evru, dal og japanskt jen en ekki endilega í silfurpening sem gefin er út til minningar um góðan mann. Með gjaldeyrishöftunum er bannað að skipta krónunni í aðra pappírspeninga sem ekkert annað er á bak við en furðuleg yfirlýsing einhvers ríkisseðlabankans um að hann muni greiða handhafan slíks pappaseðils annan slíkan! Hins vegar mega menn skipta íslensku krónunum í hvers kyns glingur úr gulli og öðrum gersemum svo lengi sem tæknikratarnir telja það ekki gjaldmiðill í viðskiptum erlendis.

Til að láta reyna á þetta hefur Vefþjóðviljinn pantað svonefndan Rothbard silfurpening sem hann lætur 6.600 íslenskar krónur fyrir. 

Þetta er sjálfsagt ekki gæfuleg fjárfesting því milljónir manna hafa undanfarin ár gefið sífellt fleiri pappírspeninga fyrir hvert gram af silfri. Á óvssutímum treysta menn alls ekki pappírsbleðlunum frá ríkisseðlabönkunum, sem stjórnmálamenn láta hiklaust prenta í tonnavís til að „koma á stöðugleika á fjármálamörkuðum“, „bjarga fjármálakerfinu“ eða „koma hjólum atvinnulífsins í gang“ fyrir næstu kosningar. Silfurverð hefur ekki verið hærra í yfir 30 ár. 

En það verður ekki allt metið í krónum og aurum.