Helgarsprokið 11. desember 2011

Vefþjóðviljinn 345. tbl. 15. árg.

Samfylkingin þáði tugi milljóna króna frá nokkrum tengdum fyrirtækjum árið 2006. Ætlar hún ekki að skila þeim eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerði? Mynd: samfylking.is.
Samfylkingin þáði tugi milljóna króna frá nokkrum tengdum fyrirtækjum árið 2006. Ætlar hún ekki að skila þeim eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerði? Mynd: samfylking.is.

Sjálfstæðisflokkurinn þáði mjög háa styrki frá tveimur fyrirtækjum á lokastundum ársins 2006. Upplýsingar um það komu fram nokkrum vikum fyrir þingkosningar 2009 og um fátt var meira rætt daga fyrir kosningarnar, ekki síst á fréttastofu Ríkisútvarpsins, bæði með kveikt og slökkt á hljóðnemunum. 

Flestir þingmenn flokksins höfðu mánuðina áður en styrkjanna var aflað átt atbeina að því að banna með nýjum lögum um fjármál stjórnmálaflokka alla styrki yfir 300 þúsund krónur. Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður átti sæti í nefnd sem samdi tillögur þess efnis og var upphafsmaður hinnar umdeildu fjársöfnunar. Geir H. Haarde forsætisráðherra lagði fram samhljóða frumvarp um málið og tók alla ábyrgð á því að flokkurinn þáði styrkina. Væntanlega vildu þeir slíkt bann því styrkir yfir þessari fjárhæð gætu verið óeðlilegir á einhvern hátt. Styrkirnir tveir til Sjálfstæðisflokksins voru átttugfalt og hundraðfalt hærri en bannið kvað á um. Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri kallaði þetta  afdrifaríkan dómgreindarbrest í leiðara Morgunblaðsins 9. apríl 2009. Og víst er að málið hjálpaði ekki Sjálfstæðisflokknum í kosningunum 25. apríl þótt ný forysta flokksins hefði ákveðið hið snarasta að endurgreiða styrkina, samtals 55 milljónir króna.

En Sjálfstæðisflokkurinn var ekki einn um að þiggja háa styrki á sama tíma og hann samþykkti bann við þeim árið 2006. 

Árið 2006 fékk Samfylkingin meðal annars eftirtalda styrki: 

FL GROUP hf………………………………………… 3.000.000

FL GROUP hf………………………………………… 5.000.000

Baugur Group hf……………………………………. 5.000.000

Dagsbrún……………………………………………. 5.000.000

Íslandsbanki hf……………………………………… 5.500.000

Exista hf……………………………………………… 3.500.000

Kaupþing hf…………………………………………. 11.500.000

Landsbanki Íslands hf……………………………….  8.500.000

Þessi styrkir eru samtals upp á tugi milljóna króna. Fjórir fyrstnefndu eru samtals upp á 23,5 milljónir króna. Einhverjir hafa ekki viljað gera mikinn greinarmun á þeim sem stýrðu FL Group, Baugi, Dagsbrún og Íslandsbanka á árinu 2006.

Þarna eru þrítugfalt hærri styrkir en Samfylkingin var á sama tíma að banna stjórnmálaflokkum að taka við.

Þessir styrkir til Samfylkingarinnar eru vissulega nokkru lægri hver um sig en þeir tveir stóru sem Sjálfstæðisflokkurinn þáði. En ekki er gott að segja hvorn flokkinn hafi munað meir um styrki af þessu tagi og verið líklegri til að láta þá hafa áhrif á sig. Sjálfstæðisflokkurinn býr til að mynda við mjög öflugt styrktarmannakerfi sem dregur að nokkru úr áhrifunum sem styrkir af þessu tagi geta haft en það gerir Samfylkingin ekki.

Ætli það hafi aldrei komið til tals innan Samfylkingarinnar að skila þessum styrkjum eins og Bjarni Benediktsson nýr formaður Sjálfstæðisflokksins ákvað að gera um leið og hann fékk veður af málinu?

Hvenær hefur fréttastofa Ríkisútvarpsins sýnt þessum styrkjum til Samfylkingarinnar minnsta áhuga? Nú er kannski lag fyrir menn þar á bæ í ljósi nýrra upplýsinga um stöðu tveggja fjárhagslegra bakhjarla Samfylkingarinnar; annars vegar sterkar fjárhagsstöðu Alþýðuhúsa Reykjavíkur hf og hins vegar getu Sigfúsarsjóðs til að láta tugmilljóna skuldir stjórnmálaflokka hverfa.