Fimmtudagur 8. desember 2011

Vefþjóðviljinn 342. tbl. 15. árg.

Núverandi og fyrrverandi bæjarstjóri hins gjaldþrota Hafnarfjarðar spoka sig í jólaþorpinu.
Núverandi og fyrrverandi bæjarstjóri hins gjaldþrota Hafnarfjarðar spoka sig í jólaþorpinu.

Bæjarstjórnarmeirihluti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði gerði bæinn gjaldþrota á síðasta kjörtímabili. Bærinn hefur ekki getað greitt af erlendum lánum sínum frá því snemma í vor.

Þótt þessi staða mætti vera öllum ljós við bæjarstjórnarkosningar á síðasta ári ákvað Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi vinstri grænna að framlengja í völdum Samfylkingarinnar með því að mynda meirihluta með henni að kosningum loknum. Er það til að leggja áherslu á þá stefnu vinstri grænna að allir samfylkingarmenn sem voru við völd í bankahruninu „axli ábyrgð“ með því að gera vinstri græna að hjálparkokkum sínum við stjórnvölinn.

Nú segist meirihlutinn hafa samið um framlengingu lána við erlenda lánadrottna sína, hinn gjaldþrota Depfa-banka og FMS Wertmanagement. Til að undirstrika  kröfuna um „gagnsæi“ og „allt upp á borðum“ eru samningar bæjarins við bankana jafn aðgengilegir almenningi og fyrstu Icesave samningar Jóhönnu og Steingríms voru þingmönnum þegar þeir áttu að samþykkja þá. Ekki verður upplýst um vaxtakjör á hinum breyttu lánum.

Eins og Vefþjóðviljinn hefur áður bent á er verulegar takmarkanir á aðfararhæfi eigna sveitarfélaga og bú þeirra verða ekki tekin til gjaldþrotaskipta. Að lána slíkum félögum sem hafa aðeins tekjur í íslenskum krónum stórfé í öðrum myntum er glæfraspil og hlýtur að hafa afleiðingar fyrir þann sem til þess efnir. 

Það er auðvitað sjálfsagt að menn virði samninga. Hins vegar er  ekkert óeðlilegt við að lán séu afskrifuð þegar lántaki getur ekki greitt þau til baka og ekki er hægt að ganga að eignum hans. Sá möguleiki er beinlínis verðlagður í vextina sem lánið ber. Þó hvorki lánveitandi né lántaki kjósi að hlutir atvikist með þeim hætti að lántaki geti ekki staðið við sinn enda samningsins gera samningsaðilar sér grein fyrir þeim möguleika í upphafi. Í flestum lánasamningum er meira að segja ítarlegur kafli sem skilgreinir fjölmörg gjaldfellingarákvæði.

Nú hefur Hafnarfjarðarbær hins vegar veitt hinum erlendu bönkum sérstakt veð í óseldum lóðum bæjarins, veð sem þeir höfðu ekki áður. Þannig tekst Samfylkingu og vinstri grænum að lengja í lánunum um fjögur ár og ýta vandanum á undan sér fram yfir næstu kosningar. 

Og Hafnfirðingar undir stjórn Samfylkingar og vinstri grænna munu næstu árin greiða vexti sem þeir hafa ekki hugmynd um hverjir eru!