Vefþjóðviljinn 309. tbl. 15. árg.
Hér var á fimmtudaginn vikið að mikilli skammarræðu sem að Willem Buiter aðalhagfræðingur Citi hélt um þá Íslendinga sem uppi voru á árunum 1993 til 2008. Hann sagðist aldrei hafa séð aðra eins múgsefjun í þróuðu ríki. Núverandi vinnuveitandi Buiters er sennilega sá banki, sem enn starfar í veröldinni, sem orðið hefur hvað rækilegast gjaldþrota og starfar nú fyrir samskot bandarískra skattgreiðenda.
Til lækningar á þessu meini Íslendinga og til að tryggja að það taki sig ekki upp að nýju lagði Buiter til að Íslendingar réðu útlendinga í ýmsar lykilstofnanir og nefndi jafnvel dómstóla í því sambandi. Einnig nefndi hann seðlabankann. Eins og Vefþjóðviljinn þreytist ekki á að segja hafa Íslendingar enga þörf fyrir seðlabanka. Sagan bendir heldur ekki til að seðlaútgáfa sé eitthvað sem íslenska ríkið ætti að leggja frekari rækt við.
En hvað um það. Buiter vill útlendinga í Seðlabanka Íslands.
Það tengist því að sjálfsögðu ekki að sambýliskona hans, Anne Siebert, situr í verðlagsnefnd fjármagns á gjaldeyrisskömmtunarskrifstofunni á Kalkofnsvegi.
Willen Buiter er einnig sagður hafa skrifað varnaðarorð um íslenskt efnahagslíf í skýrslu fyrir Landsbankann sem kom út í apríl 2008. Það var nú heldur seint í rassinn gripið og því miður er aðeins 2. útgáfa þessarar skýrslu aðgengileg og sú útgáfa kom út eftir hrun bankanna. Eins og þekkt er geta jafnvel heiti hagfræðiritgerða breyst við slíka atburði. Litlum sögum fer einnig af því að Buiter hafi haft uppi sterk viðvörunarorð á fundi með íslenskum stjórnvöldum sumarið 2008. Hann virðist litlu hafa bætt við það sem menn vissu þá þegar.