Vefþjóðviljinn 308. tbl. 15. árg.
Frá bankahruni hafa upphrópanir, hæpnar fullyrðingar og innihaldslausir frasar verið afar áberandi þáttur af íslenskum stjórnmálaumræðum.
Meðal þess sem verulega hefur verið jaskað út er hugtakið „traust“. Það ágæta hugtak er æði oft tekið traustataki af þeim sem skortir raunveruleg rök fyrir málstað sínum. Jón Jónsson „nýtur ekki trausts“, er æpt. Þess vegna þarf hann að breyta starfsháttum sínum, segja af sér og helst lenda í rannsókn sérstaks saksóknara. „Traustið í samfélaginu hefur hrunið“, þusa sumir. Þess vegna eigi þeir sjálfir að fá að móta „nýtt samfélag“. Nú þarf að „endurheimta traust“ segir aðrir. Þess vegna á ég að fá völdin.
Þeir sem hrópa dag og nótt að þessi eða hinn, hvort sem það er maður, stofnun eða fyrirtæki, hafi „glatað trausti“, hverjir eru þeir? Ætli það geti verið að þeir sjálfir eigi kannski þátt í því að þessi maður, stofnun eða fyrirtæki „glataði trausti“? Á dögunum var ráðinn forstjóri hinnar óþörfu Bankasýslu ríkisins. Nokkrir Samfylkingarmenn og fjölmiðlamenn fengu áfall og hófu mikið áróðursstríð. Þegar þeir höfðu látið dæluna ganga í fjölmiðlum, viðtölum og þingræðum dögum saman, þá sögðu þeir að ekki yrði hjá því komist að ráðningin yrði dregin til baka, því stofnunin mætti ekki glata trausti. Sumir halda kannski árum saman úti áróðri gegn stjórnmálaflokkunum, og þegar svo taka að birtast skoðanakannanir sem sýna minnkað traust til flokkanna þá koma þeir og segja nei sko, nú þarf greinilega nýja stjórnmálaflokka. Ekki gengur að vera með þessa gömlu flokka sem svo gersamlega hafa glatað trausti.
Þegar menn heyra þá kröfu að eitthvað verði gert vegna þess að maður, stofnun, fyrirtæki eða eitthvað annað hafi „glatað trausti“, þá ættu menn að vera á sérstöku varðbergi. Í mörgum tilfellum er það einfaldlega svo, að þeir sem svo tala, eru þeir sömu og hafa lengi reynt að grafa undan þessu sama trausti. Þegar menn fallast á þá kröfu að eitthvað skuli gert til þess að „endurheimta traust“, þá eru þeir oft í raun að færa sörgurunum sigurinn.
Með þessu er auðvitað ekki sagt að allir þeir sem glatað hafa trausti að einhverju eða öllu leyti hafi ekki átt það skilið. Sumt traust tapast verðskuldað. Menn verða að vega þetta og meta í hvert sinn. En merkilega oft er það svo að það er fyrst og fremst vegna ósanngjarns áróðurs, jafnvel áralangs, sem traustið hefur minnkað. Í þeim tilvikum eiga menn að reyna að sjá í gegnum áróðurinn og forðast að láta undan áróðursmönnunum.