Vefþjóðviljinn 304. tbl. 15. árg.
Þeir mega eiga það, forystumenn vinstrigrænna, að þeir eru sprelligosar.
Síðustu helgi gerðu þeir létt grín. Tókst með ofurlitlum undirbúningi að plata rúmlega hundrað manns til að fara norður til Akureyrar og ganga þar um í tvo sólarhringa haldandi að þeir væru staddir á landsfundi stjórnmálaflokks.
Meira en hundrað manns mættu á fundarstað og héldu að þeir sætu landsfund stjórnmálaflokks. Fundurinn væri meira að segja æðsta vald í málefnum annars tveggja stjórnarflokka í landinu.
Sem slíkir „fundarmenn“ gerðu þeir ýmsar samþykktir. Þeir samþykktu þar meðal annars að Vinstrigrænir væru algerlega á móti því að Ísland gengi í Evrópusambandið. Sú samþykkt verður hins vegar ekki til þess að ríkisstjórn vinstrigrænna dragi aðildarumsókn landsins í Evrópusambandið til baka, enda sprellfundur en ekki landsfundur sem ályktaði. Eins og flestir vita, sem ekki blogga, þá er inngöngubeiðni í Evrópusambandið ekki hlutlaus aðgerð, ekki könnunaraðgerð, heldur yfirlýsing stjórnvalda um að þau hafi tekið ákvörðun um að landið gangi í Evrópusambandið. Menn geta ekki í senn verið andvígir aðild og sótt um aðild.
Hins vegar virðist Steingrímur J. Sigfússon um tíma hafa verið meðal þeirra sem létu blekkjast og héldu sprellfundinn vera raunverulegan landsfund. Það var þegar fundarmenn héldu að þeir mættu marka raunverulega pólitíska stefnu og ætluðu að álykta gegn niðurskurði opinberra framlaga til heilbrigðismála. Steingrímur J. tók það ekki í mál og safnaði liði gegn tillögunni, og sagði flokksmönnum sínum að það væri „aulalegt“ að mæta til þings með ályktun sem færi gegn fjárlagafrumvarpi sem unnið hefði verið að síðan í janúar.
Já, það hefði eflaust verið aulalegt. En þannig líta menn auðvitað út þegar þeir vinna mánuðum saman að frumvörpum sem ganga gegn yfirlýstri stefnu þeirra eigin flokks.
Varla þarf að taka fram, að fundurinn tók sjálfur af öll tvímæli um að hann væri sprellfundur en ekki landsfundur, og féllst á breytingartillögu Steingríms. Raunverulegur landsfundur hefði að sjálfsögðu ekki talið sér skylt að beygja sig fyrir frumvarpi sem ráðherra sama flokks hefði lagt fram en væri ekki orðið að lögum.