Vefþjóðviljinn 298. tbl. 15. árg.
Núverandi ríkisstjórn komst til valda eftir að Samfylkingin bugaðist vegna svonefndra mótmæla veturinn 2008 til 2009. Ríkisútvarpið hvatti látlaust til mótmælanna og tilkynnti jafnan fyrirfram að þau yrðu svo fréttnæm að þeim yrði sjónvarpað beint á kostnað þeirra 99% landsmanna sem tóku engan þátt í þeim.
Fjöldamótmæli í óvissuástandi – sem stjórnmálamenn keppast skjálfandi við að segja að séu alveg sjálfsögð – eru og voru lítið annað en skálkaskjól. Hverjum manni mátti vera ljóst að í miðju bankahruni myndu ýmsir fantar sjá sér leik á borði í slíkri þvögu.
Mótmæli víða um heim voru Agli Helgasyni yrkisefni í þætti hans í Ríkissjónvarpinu16. október síðastliðinn. Þar hafði hann þennan inngang að umræðum um mótmælum:
Ég ætla nú að byrja á þessum mótmælum sem eru víða um heim, áberandi í Bandaríkjunum, ja þeir kveiktu nú í húsi á Ítalíu og það voru mótmæli hér í Reykjavík í gær. Þetta eru mótmæli sem eru kölluð occupy, þessi hreyfing í Bandaríkjunum.
Það er ef til vill til marks um hve léttvæg ofbeldið og eyðileggingin undir merkjum mótmæla eru talin að hús í björtu báli þykja bara eins og hvert annað mótmælaspjald.