Vefþjóðviljinn 294. tbl. 15. árg.
Vefþjóðviljanum hafa borist þrjár tilkynningar.
Í fyrsta lagi hefur borist ályktun stjórnar Hagsmunasamtaka skottulækna, þar sem þess er krafist að hætt verði að gera blóðprufur á sjúklingum, mæla líkamshita eða gera aðrar áþreifanlegar mælingar á heilsufari þeirra. Segir í ályktuninni að söfnun slíkra upplýsinga um sjúklinga verði til þess að auka álag á þeim sem veikastir séu og hlotið hafi verstu meðferðina. Dragi það úr trausti á skottulæknum og skekki samkeppnisstöðu þeirra gagnvart læknum sem kunna eitthvað í læknisfræði.
Í öðru lagi hefur aðalfundur Landsamtaka lélegra knattspyrnuliða nú samþykkt ályktun þess efnis að þegar í stað verði hætt að telja skoruð mörk í leikjum. Sá úrelti siður gefi áhorfendum til kynna að lið sé misöflug og sum hreinlega afleit. Slík talning sé mjög ósanngjörn gagnvart þeim sem skori fá mörk, en fái á sig mörg. Eðlilegra sé að hætta þessari hvimleiðu talningu, en fela einfaldlega þjálfara hvers liðs að skera úr um hversu sterkt lið hans sé og vel þjálfað.
Loks hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tekið til íhugunar hvort ekki sé rétt að banna birtingu lánshæfiseinkunna einstakra aðildarríkja. Félagi Michel Barnier, sem kosinn var með engu atkvæði til að „fara með málefni innri markaðar“ í framkvæmdastjórninni, hefur því nú þegar samið drög að samkomulagi um að ný stofnun verði sett á fót sem leggi „bann við mati á slíkum greiningum á greiðsluþoli ríkja“. Slíkt mat er augljóslega til þess fallið að gefa til kynna að einstök evruríki séu við það að verða gjaldþrota, nú örfáum árum eftir að stjórnmálamenn þeirra ákváðu að þau skyldu taka upp evru.