S á meirihluti hatursfullra þingismanna sem ákvað á síðasta ári að draga Geir Haarde, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, fyrir landsdóm varð í dag fyrir áfalli, eða hefði orðið það ef hann byggi ekki í Jóhönnulandi. Landsdómur vísaði frá dómi, sem ótækum til efnismeðferðar, tveimur veigamiklum ákæruliðum og það af ástæðum sem blöstu við strax og ákærurnar voru til meðferðar í þinginu.
Auðvitað getur alltaf komið til þess að ákæruliðum sé vísað frá dómi. Það þarf ekki að vera í því fólginn mikill álitshnekkir ákærandans. Hér voru ákærurnar voru hins vegar samdar á Alþingi, ræddar í þingnefnd Atla Gíslasonar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og auðvitað Hreyfingarinnar, og fleiri, og gallarnir leyndu sér ekki. Sumir voru þannig að frávísun er eðlileg, aðrir eru hins vegar þannig að þeir geta fengið efnismeðferð, en eftir hana eru miklar líkur á sýknu. Við þær aðstæður á ekki að ákæra. Þetta mun allt hafa komið fram opinberlega áður en heiftúðugir þingmenn knúðu vilja sinn fram. Þegar margbent var á gallana opinberlega, áður en ákæruefnin voru barin í gegnum Alþingi við fögnuð öskrara og ýmissa álitsgjafa, verður skömm ákærandans mikil þegar landsdómur vísar einstökum ákæruliðum frá sér sem meingölluðum.
Heiftin og ofsinn sem sást þegar meirihluti núverandi þingmanna samþykkti ákærurnar á Geir voru óþægileg sjón. Það er raunar verulegt áhyggjuefni hve heift og ofsi fá litla mótstöðu á Íslandi þessi misserin. Sömu þulurnar eru þuldar í sífellu og trúboðarnir fara í þátt eftir þátt og viðtal eftir viðtal að boða ranghugmyndir sínar. Áhrif þessa hafa verið gríðarleg.
Niðurstaða Atlanefndar, og síðar meirihluta Alþingis, var til skammar og er enn. Vefþjóðviljinn stendur að fullu við þá gagnrýni sem hann setti fram á hana þegar málið var til afgreiðslu á Alþingi, enda snerist kjarni gagnrýninnar um efnisatriði en ekki formsatriði. Sérstaklega ítrekar hann þá kröfu sína, að „þeir þingmenn sem ætla að kalla landsdóm út í fyrsta skipti í sögunni, sýni þann manndóm að leggja eigin störf undir. Verði ráðherrarnir sýknaðir fyrir landsdómi, segi þeir þingmenn af sér þingmennsku sem til þessa hafa stofnað.“