Þ að eru næg tilefni þessi dægrin til að ræða um efnahagskreppur. Þegar vikið er að Kreppunni miklu, sem jafnan er talin hafa staðið í um tíu ár frá árinu 1929, er því oft kastað fram að Franklin D. Roosevelt hafi leyst málin í Bandaríkjunum með því að auka ríkisumsvif hressilega. Það hafi nú verið eitthvað annað en laissez-faire forveri hans Herbert Hoover sem var forseti 1929 til 1933.
Þetta er sagt þótt Hoover hafi aldrei verið hallur undir frjálshyggju, hvorki í orði né verki.
Nú hefur Steven Horwitz hagfræðiprófessor samið ritgerð um skoðanir og gjörðir Hoovers fyrir CATO stofnunina. Þar rifjar hann upp ýmis ummæli Hoovers fyrir auknum ríkisafskiptum og að Hoover vildi sem viðskiptaráðherra í niðursveiflunni 1920 beita alls kyns ríkisráðum gegn henni. Horwitz segir að það hafi átt sinn þátt í því að sú kreppa var skammvinn að ekki var farið að ráðum Hoovers.
Hoover vann það einstaka afrek sem forseti að tvöfalda nær útgjöld ríkisins á einu kjörtímabili, eins og sjá má á þessu grafi frá Horwitz. Enda var haft eftir einum ráðgjafa Roosevelts að flestar hugmyndirnar í New Deal stefnu Roosevelt hafi þegar verið komnar á koppinn í forsetatíð Hoovers.
Stjórnarár Hoovers voru því næstum því jafn svakaleg frjálshyggjuár og árin 1999 til 2007 á Íslandi en þá tvöfölduðust útgjöld hins opinbera einmitt.