Þ að vantar ekki skoðanakannanir sem greina frá því að kjörnir fulltrúar njóti lítils álits. Það þarf ekki að koma að öllu leyti á óvart. Þeir sem halda að stjórnmálamenn geti leyst öll heimsins vandamál, eða því sem næst, hljóta að verða oft fyrir vonbrigðum. Þar að auki er alþingi Íslendinga óvenjulega illa skipað nú um stundir og meirihlutinn sem þar ræður ríkjum vart boðlegur. Sama á við um borgarstjórn Reykjavíkur. Stjórnarandstöðunni eru svo einnig mislagðar hendur, þá sjaldan hún reynir að berjast.
Það er því ekki furða að álit manna á kjörnum fulltrúum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, hafi minnkað á síðustu árum.
En fleira kemur til. Það er haldið uppi nær samfelldum áróðri í þessa veru. Síðustu árin hefur mjög stífur söngur verið sunginn í þessa átt, og þeir sem tala um „þjóðfélagshrun“, „ónýtt stjórnkerfi“ og þörf á „grundvallarbreytingum“, fylla umræðuþættina, þar sem stjórnendur ýta undir þá sem mest þeir mega. Útvarp og sjónvarp hafa boðið upp á langa röð slíkra manna og væri raunar nær að tala um hringekju, því sömu álitsgjafarnir fara á milli útvarps- og sjónvarpsþátta og þylja sömu frasana. Skoðanabræður þeirra taka svo undir á vefsíðum. Fáir stjórnmálamenn virðast leggja í að andmæla söngnum svo þróttur sé í, enda margir þeirra sannfæringarlausir og fjarri því að vera baráttuglaðir. Þar snýst stjórnmálabaráttan ekki lengur um sannfæringu heldur „lausnir“ og að „gera góða hluti fyrir samfélagið“.
Í morgun birti Fréttablaðið viðtal við Gauk Úlfarsson leikstjóra, sem kvaðst vera ein aðalsprautan á bak við Besta flokkinn. Blaðið hefur eftir honum á forsíðu að breyta verði umræðunni, nóg sé „komið af hávaða, upphrópunum og skítkasti í íslenskri pólitík.“ Í því er mikið til og mættu margir líta þar í eigin barm. Þá ekki síst þeir sem buðu fram til borgarstjórnar Reykjavíkur og stæra sig af því að mega svíkja öll kosningaloforð því að stjórnmálamenn hafi alltaf svikið allt. Stjórnmálamenn væru hvort sem er svo vonlausir að ekkert væri óeðlilegt við að kosningabaráttu yrði breytt í grínþátt. Einnig mega þeir líta í eigin barm sem sögðust bjóða fram til að berjast gegn innihaldslausum frösum stjórnmálamanna en mynduðu strax meirihluta með Degi B. Eggertssyni og ætla næst í sameiginlegt framboð með Guðmundi Steingrímssyni.
Sumt var ekki slæmt í viðtalinu við Gauk og hann er eflaust einlægur í þeirri skoðun að hann vinni að brýnum breytingum í íslenskum þjóðmálum. En forkólfar Besta flokksins hafa ekki síður gagn af því en aðrir stjórnmálamenn, að átta sig á því hversu fjarri þeir eru því að vera heilagir.