H ér er lítið dæmi um fagmennskuna á fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Í gærkvöldi sagði hún frá því að núverandi umhverfisráðherra ætlaði að rannsaka hvernig einn forvera hennar, Siv Friðleifsdóttir, hefði staðið að því að kveða upp tiltekinn úrskurð er varðaði byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þetta hefði verið rætt á alþingi fyrr um daginn og um þær umræður sagði í inngangi fréttastofunnar: „Vinnubrögðin þegar tekin var ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun eru alvarlegasta táknmynd yfirgangs stóriðjustefnunnar á Íslandi. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.“
Á heimasíðu Ríkisútvarpsins er birt frétt um málið, án myndskeiðs, og þar segir: „„Ákvarðanatökuferillinn allur í kringum Kárahnjúkavirkjun er alvarlegasta táknmynd yfirgangs stóriðjustefnunnar á Íslandi.“ Þetta segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.“
Í sjónvarpsfréttinni, en ekki í netfréttinni, mátti hins vegar heyra upptöku úr þingumræðunum þar sem Svandís talaði. Þar sagði Svandís Svavarsdóttir: „Í sjálfu sér er ákvarðanatökuferillinn allur í kringum Kárahnjúkavirkjun kannski alvarlegasta táknmynd yfirgangs stóriðjustefnunnar á Íslandi“.
Á þessu tvennu, því sem Svandís sagði og það sem fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði að hún hefði sagt, er talsverður munur. Svandís sagði í raun að ákvarðanatökuferillinn væri „kannski alvarlegasta táknmynd“, en fréttastofan, bæði í inngangi og í frétt sinni á vefnum, að hún hefði hreinlega sagt að vinnubrögðin væru alvarlegasta táknmyndin.
Hugsanlega þykir einhverjum þetta smámál, en þetta er dæmi um fagmennskuna hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins. Það er einfaldlega verulegur munur á því að fullyrða að eitthvað sé einhvern veginn, eða fullyrða að það sé kannski þannig. Sá sem aðeins heyrir innganginn að fréttinni, eða les fréttina á vef Ríkisútvarpsins, fær einfaldlega rangar upplýsingar um það sem Svandís sagði. Fréttamaður og fréttastofa sem ekki gera greinarmun á þessu, hversu nákvæm ætli þau séu í öðrum málum? Hverju er að treysta í endursögn fréttamanna á því sem fólk segir?
Þetta er aðeins örlítið dæmi um fagmennskuna sem fréttastofa Ríkisútvarpsins býður svo oft upp á. Enda hikar Vefþjóðviljinn ekki við að fullyrða að hún sé kannski lélegasta ríkisfréttastofa í heiminum.
U m helgina lýsti Hanna Birna Kristjánsdóttir yfir mikilli andstöðu sinni við Icesave-samning ríkisstjórnarinnar. Sú yfirlýsing kom nákvæmlega fimm mánuðum og þremur dögum eftir að hún hefði getað komið að gagni.