N ú er tækifærið fyrir alla þá sem langar til að verða borgarstjóri í Reykjavík. Starfið hefur verið auglýst laust til umsóknar. Að vísu fá menn ekki að nota titilinn, skrifstofuna, bílinn og aðstoðarmanninn, því Jón Gnarr Kristinsson notar það, en allt hitt fá menn. Jón mun líka þiggja launin.
Reykjavíkurborg hefur auglýst starf „borgarritara“ laust til umsóknar. „Borgarritari“ er yfir öllum starfsmönnum borgarinnar nema Jóni Gnarr og sinnir „í umboði borgarstjóra“ verkstjórn „í mikilvægum málaflokkum er verða rekstur Reykjavíkurborgar auk þess að bera ábyrgð á samhæfingu stjórnsýslu borgarinnar allrar. Hann hefur yfirumsjón með fjármálastjórn, hagmálum, innkaupamálum, mannauðsstjórn, upplýsingatæknimálum og þjónustumálum Reykjavíkurborgar og frumkvæði að stefnumótun á þessum sviðum. Undir borgarritara heyra borgarhagfræðingur, fjármálastjóri, innkaupastjóri, mannauðsstjóri, upplýsingatæknistjóri, þjónustustjóri og mannréttindastjóri.“
Þegar þessi lýsing á hlutverki, skyldum og undirmönnum hins nýja borgarritara er lesin, þá vakna nokkrar spurningar: Þegar búið er ráða ókosinn mann í þetta hlutverk, fyrir hvað borga Reykvíkingar þá Jóni Gnarr milljón á mánuði auk bifreiðar og bílstjóra? Hvers vegna þarf Jón Gnarr aðstoðarmann, þegar búið er að ráða borgarritara til að gera allt raunverulegt sem borgarstjóri á að gera? Er ekki nær að borgarritari fái aðstoðarmanninn? Af hverju á ókosinn embættismaður að hafa frumkvæði að stefnumótun á ýmsum mikilvægustu sviðum borgarinnar? Þeir borgarbúar sem verða óánægðir með borgarritarann sem stýrir borginni „í umboði borgarstjóra“, hvernig eiga þeir að kjósa hann í burtu í næstu kosningum?