Á dögunum fjallaði Vefþjóðviljinn um það afbrigði af hlutdrægni Ríkisútvarpsins sem ekki kemur til af vísvitandi aðgerðum heldur stafar af því að starfsmennirnir halda að heimsmynd þeirra sjálfra sé sú eina rétta, og að því sé ekkert að því að miða fréttir og dagskrá við hana eina.
Slík dæmi eru merkilega algeng og geta veitt fróðlega innsýn í Efstaleitishugsunarháttinn, en margvísleg hlutdrægni manna á þeim bæ hefur haft veruleg áhrif á stöðu og gang íslenskra þjóðmála. Að sumu leyti getur verið skynsamlegast að benda frekar á hin saklausari dæmi, sem ekki fjalla um íslensk þjóðmál, svo skoðanir á innlendum málefnum þvælist ekki fyrir.
Lítið Efstaleitisdæmi birtist í liðinni viku, í frétt af máli sem nær engu skiptir hér á landi og engum dettur í hug að fréttamaður hafi ætlað sér að segja frá með ósanngjörnum hætti.
Þá sagði Ríkisútvarpið frá því að bandaríski stjórnmálamaðurinn George Pataki hefði ákveðið að bjóða sig ekki fram til forseta á næsta ári. Í frétt Ríkisútvarpsins sagði:
George Pataki, fyrrverandi ríkisstjóri í New York, hefur ákveðið að sækjast ekki eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. Vonast hafði verið til að hófsamur repúblikani tæki þátt í forvali flokksins og sagði talsmaður Patakis fyrr í vikunni að hann íhugaði alvarlega að bjóða sig fram. Hinsvegar þykir ljóst að hófsamur stjórnmálamaður á borð við Pataki hefði átt á brattann að sækja í baráttunni um tilnefningu í flokki sem verður sífellt íhaldsamari. |
Þetta er lítil frétt um mál sem litlu skiptir. En sýnir samt örstutt inn í Efstaleitið. Og hver er myndin sem menn hafa þar af bandarískum málefnum? Jú, repúblikanar eru upp til hópa öfgamenn. Þeir skiptast í öfgamenn og svo „hófsama repúblikana“, og það „þykir ljóst“ að „hófsamur stjórnmálamaður“ eigi þar „á brattann að sækja.“
Hverjum þykir það ljóst? Mitt Romney, sem nýtur mests fylgis í könnunum meðal repúblikana, þykir hann öfgamaður rétt á meðan, en breytist svo í hófsaman ef hann heltist úr lestinni? Hverjir eru þeir, sem vonuðust til þess að þó ekki nema einn hófsamur maður byði sig fram í Repúblikanaflokknum, en töldu jafnframt ljóst að hann ætti á brattann að sækja? Það kom ekki fram í fréttinni.
Hvernig er með demókrata, ætli þar sé sama skiptingin í „öfgamenn“ og „hófsama“? Talar ríkisútvarpið mikið um „hófsama demókrata“? Er Obama hófsamur demókrati eða öfgamaður? Ætli það geti verið að demókratar séu kannski bara allir hófsamir en repúblikanar öfgamenn, svona eins og unglingarnir á íslenskum fjölmiðlum eru sannfærðir um að Fox News, sem þeir horfa aldrei á lengur en tvær mínútur í senn og þá með hryllingi, sé hlutdræg hatursstöð, en vinstristöðvarnar, sem þeir treysta svo mætavel, séu hlutlausar og virtar. Íslenskir fjölmiðlar nefna til dæmis vinstrablaðið New York Times, sem í sextíu ár hefur stutt alla forsetaframbjóðendur demókrata – alla – , aldrei annað en „stórblaðið New York Times“.
Gaman væri að vita hversu lengi það væri að breytast ef blaðið hætti að styðja demókrata jafnt og þétt.