F
Einn Nato-félaginn sem stendur að loftárásum á Líbýu svo mánuðum skiptir. |
réttir frá Líbýu hafa verið með miklum ólíkindum undanfarnar vikur og mánuði. Fyrir utan uppreisnina sjálfa þá er ýmislegt annað mjög sérstakt frá vestrænum sjónarhóli. Borgaralegt fólk á Vesturlöndum, þar á meðal á Íslandi, horfir væntanlega með vaxandi undrun á framgöngu Atlantshafsbandalagsins, sem hefur nú í allnokkurn tíma verið í greinilegu stríði í Líbýu, án þess að það ríki hafi nýlega ráðist á nokkurt Nato-ríki svo vitað sé. Og ekkert Nato-ríki hreyfir andmælum við því – og þá ekki heldur það land sem nýtur þess heiðurs að vera undir stjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Hver einasta Nato-ríkisstjórn hefur neitunarvald gegn aðgerðum bandalagsins í Líbýu, en engin þeirra kaus að nota það.
Vitaskuld þarf ekki að efast um að Moammar Gaddafí er hinn versti maður. Hann hefur án efa kúgað þegna sína áratugum saman, að ógleymdum hryðjuverkunum sem hann hefur staðið fyrir víða um heim á sömu áratugum. En að því sögðu, þá eru árásir Atlantshafsbandalagsins á hann og menn hans, árásir sem með hverjum deginum hafa orðið blygðunarlausari í því að vera beinar árásir til að koma Gaddafí frá völdum en ekki til þess að vernda almenna borgara fyrir borgarastyrjöld, vægast sagt einkennilegar, þegar horft er til eðlis og tilgangs Atlantshafsbandalagsins.
Atlantshafsbandalagið hafði í rúm sextíu ár verið varnarbandalag. Sameiginlegt bandalag sem snerist um þá grundvallarafstöðu að utanaðkomandi árás á eitt land myndi skoðast sem árás á þau öll. Gagnrýni á veru Íslands í bandalaginu gátu menn með góðri samvisku svarað með því að það væri varnarbandalag sem aldrei réðist á neinn að fyrrabragði.
Og nú heldur þetta ágæta varnarbandalag uppi samfelldum árásum í Líbýu. Að vísu er þetta ekki í fyrsta skipti sem Atlantshafsbandalagið tekur upp á því að ráðast á land að fyrrabragði, en snögg árás þess á Serbíu undir lok síðustu aldar virtist einangrað fyrirbrigði sem reyna mátti að afsaka með því að menn hefðu bara ekki getað staðið aðgerðalausir hjá samfelldum fjöldamorðum, og því skyldi kíkirinn einu sinni settur á blinda augað.
En nú hefur sami fyrrabragðs-leikur verið leikinn mánuðum saman. Allt er svo sagt gert í skjóli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þó að við blasi að farið er langt út fyrir það sem nokkur leið er að teygja skilning á þeirri ályktun. Að vísu þykir Vefþjóðviljanum ekki að réttmæti hernaðaraðgerða velti á ályktunum öryggisráðsins, en sumir segjast vera þeirrar skoðunar en jafnvel þeir láta sér vel lynda að á hverjum degi sé reynt að sprengja byrgin hans Gaddafís til þess að „halda uppi flugbanni“. Aðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Afganistan eru hins vegar gerðar í framhaldi af árásinni sem gerð var á Bandaríkin, eitt aðildarríkjanna, svo um þær gegnir nokkuð öðru máli.
Það er ekki gaman fyrir gamla stuðningsmenn veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu að þurfa nú að horfast í augu við að varnarbandalagið þeirra er orðið að árásarbandalagi. Og harðnar þá heldur á dal þeirra sem hafa hingað til mælt með veru Íslands í bandalaginu.
Með þessu er ekki sagt að árás á annað land sé aldrei réttlætanleg. Fyrir slíku geta verið sterk rök, þótt innrásir og strið séu lítið fagnaðarefni. Það breytir ekki því, að Atlantshafsbandalagið hefur ætíð verið varnarbandalag, hugsað til þess eins að gæta öryggis aðildarríkjanna. Ekki til alls óskylds erindrekstrar.
Og Gaddafí, sem Atlantshafsbandalagið ræðst nú á úr lofti á hverjum degi í marga mánuði, hvað er langt síðan að Bretar sömdu við hann á laun um að afhenda honum eins og hetju, manninn sem sprengdi farþegaflugvél yfir Skotlandi svo hundruð manna létu lífið? Það gerðu Bretar til að greiða fyrir viðskiptasamningum – á sama tíma og Bretar fylltust réttlátri reiði yfir Icesave-deilunni. Þegar Gaddafí kom síðast til Frakklands þá leyfði Sarkozy honum að slá upp bedúínatjaldborg í París. Og nú er Atlantshafsbandalagið látið gera loftárásir á hann og enginn segir neitt.
Af hverju segja íslensk stjórnvöld ekkert? Og afhverju krefur stjórnarandstaðan þau ekki um neitt.