S ífellt berast nýjar fréttir af liðinu sem sat í „stjórnlagaráði“, þeirri fráleitu samkomu sem minnihluti þingmanna, Samfylkingarmenn með nokkrum þingmönnum annarra flokka, efndi til en hefur ekkert umboð til nokkurs hlutar. Síðast í gær birti Stöð 2 viðtal við einn úr þessum hópi, Þórhildi Þorleifsdóttur. Eins og svo vinsælt er meðal hinna talandi stétta, talaði Þórhildur niður til hins lýðræðislega kjörna alþingis en taldi hina umboðslausu stjórnlagaráðsmenn, þessa sem ekkert sáu að því að setjast í ráð þótt vitað væri að „valið“ væri byggt á kosningu sem var bæri lagalega ógild og augljóslega með öllu ómarktæk, vera menn nýrra tíma. Þórhildur gaf því undir fótinn að stofnaður skyldi nýr stjórnmálaflokkur þessa fólks, vegna þess vantrausts sem „almenningur“ hefði „á stjórnmálamönnum“ sem stunduðu sífelldan „skotgrafahernað, þar sem allir hafa rétt fyrir sér.“
Það var merkilegt að fréttamaður Stöðvar 2 vakti ekki máls á því að Þórhildur Þorleifsdóttir er sjálf fyrrverandi alþingismaður. Fréttamanninum fannst greinilega ekki ástæða til að nefna þetta og spyrja þá hvort hún hefði nokkuð verið í „skotgröf“ á sínum stjórnarandstöðuárum. Eða, á þeim árum sem liðin eru síðan hún hvarf af þingi en hefur verið tíður gestur í umræðuþáttum, hvort hún hafi þá ekki örugglega lagt sig fram um að auka virðingu áheyrenda sinna fyrir alþingi og því starfi sem þar sé unnið. Hvort nokkuð geti verið að hún hafi tekið þátt í því að draga upp neikvæða mynd af alþingi og stjórnarfari, sem aftur kunni að hafa áhrif á það álit sem „almenningur“ hefur „á stjórnmálamönnum“.
Þeir, sem eru sífellt talandi um að það sé mikið vandamál hversu lítið álit fólk hafi á alþingi og stjórnmálaflokkum, hvort ætli þeir hafi nú unnið að því undanfarin ár að auka það álit, eða grafa undan því?