Fimmtudagur 4. ágúst 2011

216. tbl. 15. árg.

T ýr í Viðskiptablaði vikunnar leggur út af veglegum peningaverðlaunum sem Annie Mist Þórisdóttir hlaut fyrir besta árangur í Cross-fit þrautum í Bandaríkjunum um liðna helgi. Týr bendir á að ekki aðeins þurfi Annie að greiða tæpan helming verðlaunanna í ríkissjóð heldur skila öllum dölunum sem eftir standa inn á rangnefndan gjaldeyrisreikning hér á landi. Þar með er í raun búið að breyta þeim í íslenskar krónur og læsa verðlaunin inni.

Á þessu er annar áhugaverður flötur. Margir vinna árum saman að ákveðnu marki. Listamenn, vísindamenn og íþróttamenn eyða til að mynda árum og jafnvel áratugum í verk sín án þess að þau skili miklum tekjum. Svo ná menn takmarkinu einn góðan veðurdag og uppskera loks. Tekjurnar eru þá oft á tíðum háar en mjög tímabundnar, jafnvel aðeins í nokkur ár eða ef um sölu á hugverki eða fyrirtæki er að ræða aðeins stök greiðsla. Og þá lenda menn í allra hæstu sköttum því skattkerfið hugsar aðeins um eitt ár í einu þegar tekjuskattar einstaklinga eru annars vegar.

Maður sem hefur 120 milljónir króna í tekjur á 20 árum (500 þúsund á mánuði) greiðir 28,5% þeirra í tekjuskatt. Maður sem sópar slíkri fjárhæð inn á einu ári greiðir 43,5% hennar í tekjuskatt. Þessi munur skýrist af svonefndum persónuafslætti en einnig því að sérstök þrep hafa verið sett í tekjuskattskerfið, til að taka á hálaunadólgum.

En hvaða áhrif halda menn að þetta hafi á skapandi greinar, þekkingariðnaðinn og hvað þeir kallast nú eftirlætisatvinnuvegir hinna talandi stétta?

H vernig er komið fyrir Sjálfstæðisflokknum þegar samgönguráðherra vinstri grænna segir sem satt er að engir peningar séu til fyrir nýjum jarðgöngum til Norðfjarðar en þingmaður Sjálfstæðisflokksins svarar með grein í Morgunblaðinu þar sem hann segir að göngin kosti bara 60% af kostnaði við þau því ríkið fái svo mikið til baka vegna hárra skatta? Svo bætir hann við að útgjöldin séu aðeins svo og svo lítið brot af ýmsum sérlega heimskulegum gjöldum ríkisins.

Þeir forstöðumenn ríkisstofnana sem vilja bæta við starfsmönnum hljóta að taka þessum boðskap Tryggva Þórs Herbertssonar fagnandi. Framvegis geta þeir gengið á fund fjárlaganefndar og bent á að með því að ráða tvo nýja starfsmenn fáist í raun tveir fyrir einn því tekjuskatturinn og tryggingagjaldið séu orðin svo há að annar starfsmaðurinn sé alveg ókeypis. Tveir fyrir einn.