Þriðjudagur 2. ágúst 2011

214. tbl. 15. árg.

Í vor fól stjórnarmeirihlutinn á Alþingi svo sem einum skólabekk manna að skrifa ritgerð um stjórnarskrármál. Var það gert í flumbrugangi eftir að ríkisstjórninni mistókst að halda almennar kosningar til „stjórnlagaþings“ með lögmætum hætti.

Þetta hópverkefni mun hafa kostað tugi milljóna króna, til viðbótar með nokkur hundruð milljónum sem búið var að eyða í ógildar kosningar og annan undirbúning. Mun niðurstaða úr hópvinnunni hafa verið kynnt á dögunum og á Twitter.

Ekki hefur Vefþjóðviljinn séð tugmilljónaföndrið og leitaði því á náðir einu nornar landsins sem hefur aflað sér upplýsinga um málið. Hún segir ritgerðina ónothæfa. Á vef sínum segir Eva Hauksdóttir meðal annars um eina tillögu hópsins sem lokaður var inni í gamalli skólastofu í sumar:

„Konur og karlar skulu njóta jafnréttis í hvívetna, með þeim takmörkunum sem settar eru með lögum.“

Hvernig ætli landanum litist á þetta ákvæði í stjórnarskrá ríkis sem fylgir Sharía lögunum?

Eva nefnir annað sambærilegt dæmi um þar sem bekkurinn virðist hafa gjörsamlega misskilið einn helsta tilganginn með stjórnarskrá. Þar er sagt að allir skuli njóta ferðafrelsis og ráða búsetu sinni… eins og mælt er fyrir um í lögum. Það virðast allir í bekknum hafa verið frammi að fá sér latte þegar kom að því að ræða þann tilgang stjórnarskrár að vernda borgarana fyrir ríkisvaldinu.

Líkt og stjórnarskrá lýðveldisins mælir fyrir um er það Alþingi sem getur gert breytingar á henni en þó aðeins eftir að hafa fengið endurnýjað umboð til þess frá kjósendum með þingkosningum. Einhverjir litu engu að síður svo á að „þjóðin“ fengi hvergi að koma nærri breytingum á stjórnarskránni og vildu því fela 25 manns að gera tillögu að breytingum. Allir eiga að sjá að 25 manns handvaldir af ríkisstjórninni eru mun betra sýnishorn af þjóðinni en þessir 63 sem sitja á þingi.

Það er því hlálegt að markverðustu tillögurnar úr skólastofunni skuli vera þær að landsmenn njóti samkvæmt stjórnarskrá alls kyns réttinda en abbababb allt skuli það vera eftir því sem nánar er mælt fyrir í lögum sem sett eru af Alþinginu sem talið var ónothæft til að breyta stjórnarskránni.